Jakob Ingi Stefánsson vinstri hornamaður ÍBV er með slitið krossband í hné. Það hefur verið staðfest en handbolti.is sagði frá því fyrir helgi að grunur lék á að þannig væri komið fyrir Jakobi eftir að hann meiddist á æfingu ÍBV-liðsins á þriðjudag. Einnig er liðþófi í sama hné skaddaður.
Þar með er ljóst að Jakob Ingi, sem gekk til liðs við ÍBV í sumar, leikur ekki meira með liðinu á keppnistímabilinu.
Elís Þór Aðalsteinsson, leikmaður ÍBV, sem ristarbrotnaði á æfingu 20 ára landsliðsins á miðvikudag fer í aðgerð í næstu viku vegna brotsins, eftir því sem Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV staðfesti við handbolta.is í dag. Elís Þór leikur ekki með ÍBV á ný fyrr en keppni hefst í Olísdeild karla að loknu Evrópumótinu í handknattleik í byrjun febrúar. 
ÍBV sækir ÍR heim í 9. umferð Olísdeildar karla á fimmtudagskvöld.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.





