Einar Jónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Fram staðfesti við handbolta.is í morgun að hann hafi fengið tilkynningu frá HSÍ um að ummælum hans í viðtali við handbolta.is eftir viðureign Fram og Stjörunnar í meistarakeppni HSÍ hafi verið vísað til aganefndar. Að mati stjórnar HSÍ vega orð Einars að dómurum leiksins þrátt fyrir að þeir séu hvergi nefndir í áðurnefndu viðtali.
Má ekkert segja lengur
„Það má bara ekkert segja lengur, öll viðtöl eiga að vera sama flatneskjan,“ sagði Einar við handbolta.is í morgun og bætti við i léttum dúr. „Ég kem ekki fleiri viðtöl hjá þér.“
Tekur málinu af stóískri ró
Einar tekur málinu af stóískri rói en hyggst senda inn greinargerð til aganefndar í samráði við stjórnendur handknattleiksdeildar Fram, máli sínu til varnar.
Var tekið úr sambandi í vor
Mál Einars er ekki síst áhugavert í ljósi þess að fyrir úrslitakeppni Olísdeildar hætti stjórn HSÍ skyndilega að nýta rétt sinn til þess að vísa málum sem sneru að ummælum leikmanna og þjálfara viðtölum og grófum leikbrotum leikmanna sem e.t.v. höfðu farið framhjá dómurum. Varð það til þess að aldrei þessu vant kom ekkert mál af slíku tagi inn á borð aganefndar HSÍ alla úrslitakeppnina. Hermt var í vor skipa ætti sérstaka áfýjunarnefnd til að taka við beiskum kaleik stjórnar. Áfýjunarnefndin hefur ekki verið skipuð, eftir því sem næst verður komist.