- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stál í stál í Kristianstad

Elliði Snær Viðarsson leikmaður Gummersbach og íslenska landsliðsins. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Þetta verður hörkuleikur við Ungverja. Þeir eiga harma að hefna eftir að við unnum þá á heimavelli á EM fyrir ári,“ sagði Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handknattleik þegar handbolti.is heyrði stuttlega í honum hljóðið síðdegis í gær, í aðdraganda næsta leiks íslenska landsliðsins á HM, gegn Ungverjum í kvöld í Kristianstad. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

Ætlum að ná markmiði okkar

„Þeir mæta brjálaðir til leiks en hvað sem því líður þá munu Ungverjar ekki koma í veg fyrir að við náum markmiðum okkar að vinna leikinn, hvernig sem þeir ætla sér að koma inn í hann,“ sagði baráttumaðurinn úr Vestmannaeyjum sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna fremur en aðrir leikmenn íslenska landsliðsins.

Eins marks sigur fyrir ári

„Ég reikna með að það verði stál í stál. Við unnum leikinn í fyrra með eins marks mun og það gæti líka orðið raunin í þetta skiptið. Munurinn verður kannski eitt eða tvö mörk. Það er mjög erfitt en krefjandi verkefni að eiga við Ungverjana sem eru stórir og sterkir,“ sagði Elliði sem reiknar með gríðarlegri stemningu.

Mikil orka frá áhorfendum


Stuðningurinn sem íslenska landsliðið fékk í leiknum við Portúgal í fyrrakvöld var einstakur og lét landsliðsmenn ekki ósnortna. Nærri 2.000 íslenskir áhorfendur voru hreint magnaðir. Elliði Snær segist aldrei hafa upplifað annað eins.


„Stemningin var ótrúleg og meiri en maður hefur nokkurn tímann upplifað áður á landsleik. Ég get ekki beðið eftir því að sjá og heyra eitthvað svipað í næsta leik. Maður fékk mikla orku úr stúkunni. Ég geri ráð fyrir að fleiri verði í stúkunni á leiknum við Ungverja og stemningin þar af leiðandi engu minni, sennilega bara meiri,“ sagði Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handknattleik síðdegis í gær.

D-riðill (Kristianstad)
Ungverjaland – Suður Kórea 35:27 (21:11).
Ísland – Portúgal 30:26 (15:15).
14. janúar:
Portúgal – Suður Kórea, kl. 17.
Ísland – Ungverjaland, kl. 19.30.
16. janúar:
Suður Kórea – Ísland, kl. 17.
Portúgal – Ungverjaland, kl. 19.30.


Leikjadagskrá HM, staðan, riðlar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -