Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í svissneska liðinu Kadetten Schaffhausen standa höllum fæti í keppni við Pfadi Winterthur um meistaratitilinn í handknattleik karla í Sviss eftir annað tap í úrslitarimmu liðanna í kvöld, 33:28. Leikið var í Schaffhausen. Pfadi Winterthur hefur þar með tvo vinninga en Kadetten engan.
Pfadi Winterthur getur tryggt sér meistaratitilinn á fimmtudaginn þegar þriðja viðureign liðanna fer fram í Winterthur en 17 ár eru liðin síðan Pfadi Winterthur vann síðasta meistaratitilinn.
Leikmenn Kadetten komust yfir, 1:0, í kvöld en áttu eftir það undir högg að sækja. Þeir voru fjórum mörkum undir í hálfleik, 19:15, og byrjuðu síðari hálfleikinn afleitlega. Pfadi Winterthur náði í tvígang níu marka forskoti, 27:19, og 28:19, áður en lærisveinum Aðalsteins tókst að minnka aðeins muninn undir lokin.