Haukar sýndu seiglu á endasprettinum í TM-höllinni í kvöld og öngluðu í annað stigið í heimsókn sinni til Stjörnunnar, 29:29. Guðmundur Bragi Ástþórsson og Ólafur Ægir Ólafsson skoruðu tvö síðustu mörk leiksins á síðustu 70 sekúndum leiksins.
Stefán Huldar Stefánsson var síðan hetja liðsins í lokin, annan leikinn í röð, þegar hann varði síðasta markskot Stjörnunnar, frá Pétri Árna Haukssyni, þegar um fimm sekúndur voru til leiksloka. Stefán Huldar byrjaði dauflega í markinu enda búinn að vera veikur í vikunni. Honum óx ásmegin þegar á leið.
Minnstu mátti muna að sekúndurnar sem eftir voru nægðu Haukum til þess að fá bæði stigin. Sennilega hefði það þó ekki verið sanngjarnt. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 15:15. Jafnt var á flestum tölum í leiknum fyrir utan að Stjarnan skoraði þrjú fyrstu mörkin.
Stjörnumenn naga sig vafalaust í handarbökin að hafa ekki gert betur á endasprettinum verandi komnir með tveggja marka forskot þegar skammt var til leiksloka. Stjarnan mátti sætta sig við annað jafnteflið í röð á heimavelli.
Stefán Rafn Sigurmannsson var útilokaður frá leiknum stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar vítakast hans fór í höfuðið, eða straukst við höfuðið á Arnóri Frey Stefánssyni, markverði Stjörnunnar. Arnór Freyr kom heldur ekkert meira við sögu í leiknum. Stefán hafði fram að þessum tíma leikið stórt hlutverk hjá Haukum, ekki síst í vörninni. Var skarð fyrir skildi af brotthvarfi beggja af leikvellinum. Arnór Freyr hafði einnig staðið sig vel í marki Stjörnunnar.
Haukar eru þar með í þriðja sæti með sex stig eftir fjóra leiki. Stjarnan er hinsvegar með fjögur stig.
Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 8/3, Tandri Már Konráðsson 5, Hergeir Grímsson 4, Pétur Árni Hauksson 3, Björgvin Þór Hólmgeirsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 2.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 9/1, 32,1% – Adam Thorstensen 3, 30%.
Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 7, Andri Már Rúnarsson 7, Heimir Óli Heimisson 3, Adam Haukur Baumruk 2, Geir Guðmundsson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Stefán Rafn Sigurmansson 2/1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 11/1, 35,5% – Matas Pranckevicius 1, 10%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.