„Ég er náttúrulega bara mjög svekktur og illt í sálinni fyrst og fremst. Ég var búinn að leggja hart að mér í sumar til að vera klár í tímabilið,“ segir Tandri Már Konráðsson fyrirliði Stjörnunnar í samtali við Handkastið í morgun þar sem hann staðfestir að önnur hásin hans hafi slitnað í viðureign Stjörnunnar og CS Minaur Baia Mare í forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik á laugardaginn.
Handbolti.is sagði frá því á sunnudaginn og óttast væri að hásin Tandra Más hafi slitnað í leiknum.
Stefnir á endurkomu
Tandri Már segir ennfremur í samtali við Handkastið að hann bíði aðgerðar á næstu dögum. Við taki nokkurra mánaða endurhæfing, sex til níu mánuðir. Sem stendur ætlar Tandi Már ekki að láta þetta áfall hindra sig í að taka upp þráðinn aftur á handboltavellinum.
„Stefnan er sett á að koma til baka. Ég á mjög erfitt með að hætta á þessum forsendum,“ segir Tandri Már Konráðsson í samtali við Handkastið.
Tveir leikir á næstu dögum
Stjarnan mætir Val í Hekluhöllinni á miðvikudagskvöld í fyrsta leik tímabilsins í Olísdeild karla. Á laugardaginn tekur Stjarnan á móti CS Minaur Baia Mare í síðari viðureign liðanna í forkeppni Evrópudeildar. Fyrri viðureigninni lyktaði með jafntefli, 26:26. Samanlagður sigurvegari í leikjunum tveimur tekur sæti í riðlakeppni 32-liða úrslita Evrópudeildarinnar.
Miðasala á viðureign Stjörnunnar og CS Minaur Baia Mare er hafin á stubb.is.