Danskir fjölmiðlar fullyrða að Helle Thomsen verði næsti þjálfari danska kvennalandsliðsins í handknattleik. Thomsen verður þar með fyrsta konan í nærri sex áratugi til þess að þjálfa danska kvennalandsliðið. Jesper Jensen stýrir danska landsliðinu í síðasta sinn í tveimur vináttuleikjum við Þýskalandi í kvöld og á laugardaginn. Hann tekur við þjálfun FTC í Ungverjalandi í sumar.
Thomsen, sem fæddist í Frederikshavn á norður Jótlandi fyrir 54 árum, hefur undanfarin ár þjálfað rúmenska meistaraliðið CSM Búkarest. Hún þekkir vel til þjálfunar landsliða. Thomsen stýrði sænska landsliðinu 2014 til 2015 og var síðan með hollenska landsliðið frá 2016 til 2018.
Eftir að Thomsen hætti með hollenska landsliðið fyrir átta árum og þangað til hún tók við CSM Búkarest í annað sinn á ferlinum síðasta sumar hefur Thomsen m.a. þjálfað Molde í Noregi, tyrkneska liðið Kastamonu Belediyesi GSK og Neptunes de Nantes í Frakklandi.
Hafa gefið sér góðan tíma
Forráðamenn danska handknattleikssambandsins hafa síðustu vikur velt fyrir sér eftirmanni Jensen. Hermt er að m.a. hafi verið rætt við Kasper Christensen, Nicolej Krickau, Jakob Vestergaard og Ulrik Kirkely auk Thomsen sem virðist ætla að hreppa hnossið.