Steinunn Björnsdóttir skoraði þriðjung marka Framliðsins sem vann ÍBV, 30:27, í fyrri leik annarrar umferðar Ragnarsmótsins í Sethöllinni á Selfossi í kvöld. Fram hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu og mætir Selfossi á laugardaginn í lokaumferðinni. Selfossliðið leikur á eftir við Stjörnuna í síðari viðureign dagsins á mótinu sem fram fer í Sethöllinni á Selfossi.
Framliðið byrjaði af krafti og skoraði átta af fyrstu níu mörkunum. Framliggjandi vörn liðsins sló ÍBV út af laginu, líkt og hún gerði á móti Stjörnunni í fyrrakvöld. Eftir að Fram bakkaði aftur í vörninni óx ÍBV-liðinu ásmegin. ÍBV skoraði sjö mörk gegn tveimur á stuttum tíma og þegar fyrri hálfleikur var úti var staðan jöfn, 12:12.
Framan af síðari hálfleik var leikurinn í járnum. ÍBV-liðið brenndi sig á kafla þegar það kallaði markvörð sinn úr markinu til að fjölga í sóknarleiknum. Framarar nýttu það vel með því að skora a.m.k. fimm sinnum í autt mark Eyjaliðsins.
Síðustu tíu mínútur leiksins var Framliðið sterkara og vann nokkuð sannfærandi sigur.
Sem fyrr vantaði nokkra sterka leikmenn í Framliðið að þessu sinni og má þar m.a. nefna Karen Knútsdóttur og Ragnheiði Júlíusdóttur. Einnig var Hafdís Renötudóttir landsliðsmarkvörður ekki með.
Marta Wawrzynkowska, markvörður ÍBV, tók þátt í leiknum í kvöld og eins Karlona Olszowa. Horug þeirra var með Selfossi í fyrrakvöld vegna meiðsla. Birna Berg Haraldsdóttir var fjarverandi.
Mörk ÍBV: Ásta Björt Júlíusdóttir 7, Hrafnhildur Hanna Þrastarsdóttir 6, Amelía Dís Einarsdóttir 3, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Marija Jovanovic 3, Karolina Olszowa 2, Ingibjørg Olsen 1, Sara Dröfn Richardsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1.
Mörk Fram: Steinunn Björnsdóttir 10, Þórey Rósa Stefánsdóttir 8, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 3, Hekla Rún Ámundadóttir 3, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 1, Tinna Valgerður Gísladóttir 1.