„Ég held að við séum bara nokkuð góðir,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið fyrir handboltaveisluna í Kaplakrika í kvöld þegar sá sögulegi viðburður á sér stað að Valur og FH sameinast um heimavöll í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik.
Valsmenn eiga fyrra atriði kvöldsins, sem hefst klukkan 18.15, þegar þeir taka á móti Porto sem m.a. hefur innan sinna raða stórskyttuna Þorstein Leó Gunnarsson.
Viðureign Vals og Porto hefst klukkan 18.15 í kvöld í Kaplakrika í Hafnarfirði.
Klukkan 20.30 hefur síðari viðureign kvöldsins, leikur FH og Gummersbach sem einnig er hluti af riðlakeppni Evrópudeildar.
- Miðasala á handboltaveisluna í Kaplakrika í dag, þriðjudag, er á stubb.is – smellið hér.
Mikil eftirvænting í loftinu
Þrátt fyrir að hafa tekið þátt í mörgum leikjum í Evrópukeppni segir Óskar Bjarni mikla eftirvæntingu vera í loftinu, meiri en stundum áður.
Menn fara aðeins lengra
„Stemningin í kringum þennan viðburð í Kaplakrika drífur alla með, allir vilja taka þátt. Menn fara aðeins lengra. Flestir okkar þekkja hvað þetta er gaman. Ég er mjög stoltur af Val og FH að vinna að þessu saman og búa til flotta handboltaveislu fyrir handboltasamfélagið okkar. Tvö íslensks lið að taka móti tveimur alvöru erlendum félagsliðum með mikilli tengingu við Ísland.
Rothöggið úr Mosó
Guðjón Valur Sigurðsson sem er einn okkar dáðasti drengur, Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson og svo er von á rothögginu úr Mosó með Þorstein Leó Gunnarsson í broddi fylkingar. Umgjörðin er frábær. Allt mun þetta gefa leikmönnum mjög mikið,“ sagði Óskar Bjarni sem einnig lauk lofsorði á FH-inga að hafa látið slag standa og tekið þátt í Evrópudeildinni.
Aðdáandi Portoliðsins
Spurður um Porto svaraði Óskar að hann hafi verið aðdáandi liðsins síðast þegar Magnus Andersson var með liðið, frá 2018 til 2023, en Svíinn kom aftur til félagsins í sumar eftir eins árs fjarveru.
„Takturinn og hraðinn í leiknum. Skemmtilegur sóknarleikur. Liðið hefur nú yfir að ráða sterkum og stórum línumönnum, öflugum miðjumanni og svakalegum skyttum, þar á meðal Þorsteini Leó. Hann hefur leikið vel með liðinu til þessa. Ég var ánægður fyrir hönd Þorsteins þegar Magnus tók aftur við liðinu í sumar. Þetta verður skemmtilegt og verðugt verkefni hjá okkur,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals m.a. í samtali við handbolta.is.
Evrópukeppni félagsliða – fréttasíða.
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 1. umferð, úrslit