„Við náðum upp þeim varnarleik sem við ætluðum okkur. Ég held að það hafi skilað okkur sigrinum. Við fengum bara 20 mörk á okkur. Ég væri til í að fá aldrei fleiri en 20 mörk á mig í leik,“ sagði Alexandra Líf Arnarsdóttir leikmaður Hauka eftir að liðið vann Fram, 24:20, í fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik í gær.
Þetta var þriðji sigur Hauka á Fram og færir Hafnarfjarðarliðinu sæti í úrslitaleikjum gegn Val um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsti úrslitaleikurinn verður þriðjudaginn 20. maí.
Haukar náðu þriggja marka forskoti snemma í síðari hálfleik sem liðið hélt meira og minna til leiksloka. „Við náðum góðum kafla í vörninni og tókst að refsa Framliðinu með hröðum upphlaupum sem skipti miklu máli,“ sagði Alexandra Líf.
Vegna úrslitaleikja Vals í Evrópubikarkeppninni tvo næstu laugardaga þá dregst í hálfan mánuð að hefja úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitilinn þar sem Valur og Haukar eigast við annað árið í röð.
„Ég væri til í spila eftir tvo daga. Þær fara í Evrópuleik og síðan glímum við þær. Það eru spennandi leikir framundan,“ sagði Alexandra Líf.
Lengra viðtal við Alexöndru Líf er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Sjá einnig:
Haukar leika til úrslita við Val
Olís kvenna: Leikjadagskrá, úrslitakeppni 2025