- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stjarnan braut blað í sögunni

Patrekur Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Stjarnan er komin í undanúrslit á Íslandsmóti karla í handknattleik í fyrsta sinn í sögunni. Blaðið var brotið í kvöld undir stjórn Patreks Jóhannessonar í því húsi þar sem hann vann Íslandsmeistaratitilinn með Selfossi fyrir tveimur árum, Hleðsluhöllinni á Selfoss. Stjarnan lagði Selfoss, 30:28, og fór áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli en fyrri viðureigninni lauk með tveggja marka sigri Selfoss, 26:24.
Garðbæingar mæta þar með deildarmeisturum Hauka í undanúrslitum og verður fyrsti leikur liðanna í TM-höllinni í Garðabæ á þriðjudagskvöld.

Leikurinn var jafn upp í stöðuna 9:9. Þá tókst Selfossliðinu að skora tvö mörk í röð. Heimamönnum tókst ekki að spila vel úr stöðunni. Í stað þess að bæta við forskot sitt, því Vilius Rasmas varði á þessum tíma nokkur mikilvæg skot, þá hleyptu þeir Stjörnunni inn í leikinn aftur. Þegar fjórar mínútur voru til leiksloka var Stjarnan komin með tveggja marka forskot, 14:12, og litlu mátti muna að munurinn yrði þrjú mörk ef ekki hefði komið til ævintýraleg markvarsla Rasimas gegn Degi Gautasyni.


Mikill darraðardans var stiginn á lokamínútum hálfleiksins en lítið skorað og Stjarnan fór með eins marks forskot inn í hálfleikinn, 14:13.


Selfoss byrjaði síðari hálfleik af miklum krafti vel studdir vöskum hópi stuðningsmanna sem drógu hvergi af sér. Selfoss náði þriggja marka forskoti þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar, 17:14. Nökkvi Dan Elliðason bætti við forskotið með marki eftir hraðaupphlaup, 18:14. Þá var kátt í Hleðsluhöllinni.


Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, tók síðasta leikhlé sitt þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Fimm mínútum áður hafði hann tekið það fyrra. Hvorki gekk né rak. Hans menn voru fjórum mörkum undir, 22:18. Það blés ekki byrlega. Þrjú mörk í röð frá Stjörnunni eftir hléið hleypti spennu í leikinn á ný og nýju lífi í leikmenn liðsins sem virtust vera farnir að hengja haus.

Selfoss var tveimur mörkum yfir, 24:22, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður og skömmu síðar var jafnt, 25:25. Björgvin Þór Hólmgeirsson fór á kostum í sóknarleiknum.


Dagur Gautason kom Stjörnunni yfir, 26:25, þegar tíu mínútur voru eftir. Stjarnan fór að leggja meiri áherslu á sjö menn í sókn þegar á leið hálfleikinn.


Stjarnan náði þriggja marka forskoti, 29:26 þegar fjórar mínútur voru eftir. Syrt hafði álinn hjá heimamönnum. Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari tók sitt síðasta leikhlé til að hressa upp á sína menn sem höfðu farið illa að ráði sínu í nokkrum sóknum áður.


Ragnar Jóhannsson minnkaði muninn í tvö mörk, 30:28, þegar tæp mínúta var til leiksloka, 30:28. Stjarnan náði að hanga á forskotinu til enda.

Mörk Selfoss: Atli Ævar Ingólfsson 8, Hergeir Grímsson 6/3, Ragnar Jóhannsson 5, Einar Sverrisson 4, Nökkvi Dan Elliðason 3, Tryggvi Þórisson 2, Alexander Már Egan 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 14, 35,9%.
Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 8/6, Björgvin Þór Hólmgeirsson7, Dagur Gautason 6, Pétur Árni Hauksson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Tandri Már Konráðsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 7, 35% – Brynjar Darri Baldursson 6, 28,6%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -