Stjarnan fylgdi Haukum og ÍR-ingum eftir í átta lið úrslit Poweradebikarsins í handknattleik karla í kvöld með sex marka sigri á Fjölni, 39:33, eftir framlengdan leik í Hekluhöllinni í Garðabæ. Staðan var jöfn að loknum venjulegum leiktíma, 30:30, eftir að leikmenn Fjölnis höfðu sýnt mikla þrautseigju við að jafna metin á allra síðustu mínútunum eftir að hafa verið þremur mörkum undir.
Illa gekk að tjónka við leikklukkuna í Hekluhöllinni og var engu líkara en það slægi Fjölnismenn út af laginu í framlengingunni. Alltént skoruðu þeir ekki mark fyrri fimm mínúturnar þegar loksins var hægt að hefja leik. Á sama tíma skoraði Stjarnan fimm sinnum.
Stjarnan var með þriggja marka forsot, 15:12, og var reyndar með eins til fjögurra marka forskot allan leikinn allt þar til á síðustu sekúndum hefðbundins leiktíma.
Þrjú mörk í röð
Björgvin Páll Rúnarssson jafnaði metin fyrir Fjölni í fyrsta sinn í leiknum örfáum sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma, 30:30, og tryggði framlengingu. Það var þriðja mark liðsins í röð en svo virtist sem ekki blési byrlega fyrir Fjölni þremur mínútum fyrir leikslok þegar Tandri Már Konráðsson skoraði 30. mark Stjörnunnar, 30:27, úr vítakasti.
Röng skipting
Gunnar Steinn Jónsson þjálfari Fjölnis og fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar skoraði 29. markið þegar 70 sekúndur voru til leiksloka, 30:29. Stjarnan gerði sig seka um ranga skiptingu þegar hún hóf sókn. Röng skipting fór ekki framhjá árvökulum augum Guðjóns L. Sigurðssonar eftirlitsmanni. Stjarnan var þar með manni færri en kallaði markvörðinn af leikvelli og freistaði þess að skora 31. markið í sinni síðustu sókn. Það lánaðist leikmönnum liðsins ekki og baráttuglaðir leikmenn Fjölnis hófu sókn 20 sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma. Sókn sem lauk með jöfnunarmarki Björgvins Páls.
Tókst ekki að nýta byrinn
Eftir talsverðan barning við leikklukkuna í Hekluhöllinni, og það ekki í fyrsta sinn, tókst loksins að hefja fyrri hluta framlengingunnar. Fjölnismönnum tókst ekki að nýta sér byrin sem þeir voru með í seglum undir lok venjulegs leiktíma.
Adam skoraði tvö
Stjarnan skoraði fimm mörk án svars frá Fjölni í fyrri helmingnum. Þar af skoraði Adam Thorstensen markvörður Stjörnunnar í tvígang auk þess að verja vel. Hann hélt því áfram í síðari hluta framlengingar loksins þegar aftur var gerlegt að ná stjórn á leikklukkunni.
Poweradebikar karla – fréttasíða.
Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 6, Pétur Árni Hauksson 6, Jóel Bernburg 5, Tandri Már Konráðsson 5, Sveinn Andri Sveinsson 4, Egill Magnússon 3, Adam Thorstensen 2, Hans Jörgen Ólafsson 2, Jóhannes Bjørgvin 2, Rytis Kazakevicius 2, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 10, Sigurður Dan Óskarsson 5.
Mörk Fjölnis: Björgvin Páll Rúnarsson 10, Brynjar Óli Kristjánsson 7, Alex Máni Oddnýjarson 5, Gunnar Steinn Jónsson 5, Viktor Berg Grétarsson 3, Haraldur Björn Hjörleifsson 1, Óðinn Freyr Heiðmarsson 1, Victor Máni Matthíasson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 5, Bergur Bjartmarsson 1.