- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stjarnan fór með bæði stigin frá Ásvöllum

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar og leikmenn hans getað prísað sig sæla með að fá tvö stig úr leiknum í Kórnum. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Stjörnumenn fóru syngjandi, sælir og glaðir heim úr heimsókn sinni í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld eftir að þeir lögðu Hauka með tveggja marka mun, 30:28, í lokaleik 3. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 13:13.


Stjarnan hefur þar með fjögur stig en þetta var aðeins annar leikur liðsins í Olísdeildinni á tímabilinu. Haukar fara inn í Evrópuviku með fimm stig að loknum fjórum leikjum en þeir áttu þess kost að setjast í efsta sæti deildarinnar með sigri. Framundan hjá Haukunum er Kýpurferð þegar á vikuna líður þar sem þeirra bíða tveir leikir í 2. umferð Evrópubikarkeppninnar um komandi helgi.


Haukar byrjuðu leikinn betur í kvöld og komust yfir, 8:4, á kafla áður Stjörnuliðið, sem lék án Tandra Más Konráðssonar sem meiddist á hné á æfingu í gær, fóru að bíta frá sér. Varnarleikurinn var góður og mörk eftir hraðaupphlaup skiluðu sér.


Jafnt var á öllum tölum þar til um tíu mínútur voru til leiksloka þegar Stjarnan náði frumkvæðinu sem liðið hélt til leiksloka og fagnaði kærkomnum sigri. Haukar átti þó þess kost að jafna metin þegar fáeinar sekúndur voru til leiksloka. Skot Adams Hauks Baumruk geigaði. Starri Friðriksson notaði þær sekúndur sem eftir voru til þess að skora 30. mark Stjörnunnar áður en leiktíminn var úti.

Rautt spjald fór á loft hjá ágætum dómurum leiksins, Magnúsi Kára Jónssyni og Heimi Erni Árnasyni. Þeir sendu Stjörnumanninn efnilega Jón Ásgeir Eyjólfsson upp í stúku fyrir að mæta Ólafi Ægi Ólafssyni fremur harkalega.


Hafþór Már Vignisson var atkvæðamestur Stjörnumanna með níu mörk. Hann fór á kostum á tímabili. Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði átta mörk og lét högg á hné snemma leiks ekki kom í veg fyrir að mæta aftur til leiks. Adam Thorstensen varði mikilvæg skot í lokin. Bræðurnir Sverrir og Hrannar Eyjólfssynir stóðu vel í miðju varnarinnar. Sá síðarnefndi hljóp í skarðið fyrir Tandra í sóknarleiknum og náði sér vel á strik.


Haukum tókst ekki að láta kné fylgja kviði eftir góða byrjun á leiknum. Eftir það náðu þeir sér aldrei á það strik sem vænta má af þeim. Þeir voru þó aldrei langt undan.


Mörk Hauka: Adam Haukur Bamruk 6, Darri Aronsson 5, Heimir Óli Heimisson 4, Þráinn Orri Jónsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 3, Tjörvi Þorgeirsson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Geir Guðmundsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 12, 34,3%. Stefán Huldar Stefánsson 0.
Mörk Stjörnunnar: Hafþór Már Vignisson 9, Björgvin Þór Hólmgeirsson 8, Dagur Gautason 5, Starri Friðriksson 4, Sverrir Eyjólfsson 2, Leó Snær Pétursson 1, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 6/1, 27,3% – Arnór Freyr Stefánsson 4, 25%.

Stöðuna í Olísdeildinni og næstu leiki er hægt að sjá hér.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -