Stjarnan komst í kvöld í undanúrslit Poweradebikarsins í handknattleik í fimmta sinn á síðustu sex árum með naumum sigri á ÍR, 35:34, í hörkuskemmtilegum leik á heimavelli ÍR-inga í Skógarseli. ÍR var með undirtökin í leiknum lengst af, m.a. 20:18 eftir fyrri hálfleik.
Sjá einnig: „Ég er ekkert eðlilega fúll“
Það setti verulegt mark á leik ÍR þegar leið á síðari hálfleik að hafa misst tvo öfluga leikmenn af leikvelli vegna þriggja brottvísana. Fyrst varð Bjarki Steinn Þórsson að yfirgefa völlinn fyrir fullt og fast eftir fimm mínútur af síðari hálfleik. Baldur Fritz Bjarnason fór sömu leið níu mínútum fyrir leikslok. Hann var hafði þá skorað 11 mörk í 14 skotum.
Utan vallar í 36 mínútur
Mjög mikið var dæmt í leiknum sem var alls ekki ruddalega leikinn. Engu að síður voru leikmenn utan vallar í 36 mínútur, ÍR í 20 mínútur og Stjarnan í 16. Þess utan þurfti oft að stöðva tímann til að skeggræða við eftirlitsmanninn.
Fyrsta sinn yfir 5 mínútum fyrir leikslok
Stjarnan komst í fyrsta sinn yfir í leiknum þegar fimm mínútur voru eftir þegar Ísak Logi Einarsson komst inn í sendingu og skoraði eftir hraðaupphlaup. Mikil spenna var á lokamínútunum. Stjörnumenn komust tveimur mörkum yfir, 35:33, þegar tvær og hálf mínúta var eftir. ÍR-ingar reyndu ákaft að jafna metin en komust ekki nær en sem nam einu marki.
Ekkert bar á varnarleik í fyrri hálfleik en heldur lifnaði yfir honum í síðari hálfleik þótt seint verði leikurinn kennslubókarefni í þeim hluta leiksins.
Bernard fór á kostum
Fyrir utan Baldur Fritz þá var hinn 17 ára gamli Bernard Kristján Darkoh stórkostlegur í liði ÍR. Stjörnumenn réðu ekkert við piltinn sem virðist taka framförum með hverjum mánuðinum sem líður. Bernard skoraði 11 mörk í 14 skotum auk þess að vera með fimm sköpuð færi.
Ísak Logi öflugur
Ungur leikmaður Stjörnunnar, Ísak Logi Einarsson, vakti einnig mikla athygli í leiknum. Hann féll vel inn í þann hraða leik sem boðið var upp á. Ísak Logi gerði usla sem fremsti maður í 5/1 vörn Stjörnunnar og skoraði mörk eftir hraðaupphlaup en einnig af útsjónarsemi gegn á tíðum gisinni vörn ÍR-inga.
Sjá einnig: „Þetta er bara geggjað“
Mörk ÍR: Baldur Fritz Bjarnason 11/4, Bernard Kristján Darkoh 11, Hrannar Ingi Jóhannsson 5, Sveinn Brynjar Agnarsson 3, Eyþór Ari Waage 2, Róbert Snær Örvarsson 1, Bjarki Steinn Þórisson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 9, 22,5%.
Mörk Stjörnunnar: Ísak Logi Einarsson 9, Hjálmtýr Alfreðsson 6, Pétur Árni Hauksson 6, Jón Ásgeir Eyjólfsson 4, Egill Magnússon 4, Starri Friðriksson 3/1, Jóel Bernburg 2, Hans Jörgen Ólafsson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 6, 26% – Adam Thorstensen 5, 23,8%.