Stjarnan leikur við Val í úrslitum Powerade-bikarsins í handknattleik kvenna á laugardaginn. Stjarnan vann Selfoss, 26:25, eftir framlengdan háspennuleik í Laugardalshöll. Staðan var jöfn, 23:23, eftir venjulegan leiktíma. Að loknum fyrri hálfleik var staðan jöfn, 12:12.
Þetta er fyrsti tapleikur Selfoss á keppnistímabilinu eftir 18 sigurleiki í Grill 66-deildinni og Poweradebikarnum.
Alvarleg meiðsli
Alvarleg meiðsli Kötlu Maríu Magnúsdóttur leikmanns Selfoss eftir rúmlega 19 mínútna leik skyggði skiljanlega á leikinn og kom verulega niður á leik Selfoss-liðsins. Katla María er önnur af tveimur helstu skyttum liðsins. Selfoss-liðið virtist vera að ná tökum á leiknum þegar Katla María meiddist. Staðan var 9:7 fyrir Selfoss.
Selfoss var með eins til tveggja marka forskot fram yfir miðjan síðari hálfleik þegar Stjörnunni tókst að komast yfir, 21:20, og síðar 23:21 þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Stjarnan skoraði ekki mark síðustu átta mínúturnar.
Selfossi tókst jafna metin eftir talsverðan barning, 23:23. Hulda Dís Þrastardóttir skoraði jöfnunarmarkið.
Í framlengingunni náði Stjarnan tveggja marka forskoti, 26:24, eftir fjórar mínútur. Liðið skoraði ekki mark eftir það. Selfoss náði aðeins einu marki og átti sókn á síðustu mínútu til að jafna metin, 26:25. Sóknin rann út í sandinn 19 sekúndum áður en framlengingunni lauk og Stjarnan hélt boltanum þær sekúndur sem eftir voru.
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 7/1, Helena Rut Örvarsdóttir 5, Eva Björk Davíðsdóttir 4, Anna Karen Hansdóttir 3, Hanna Guðrún Hauksdóttir 3, Stefanía Theodórsdóttir 2, Elísabet Gunnarsdóttir 1, Vigdís Arna Hjartardóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 7, 24,1% – Elísabet Millý Elíasardóttir 0.
Mörk Selfoss: Perla Ruth Albertsdóttir 8/7, Tinna Sigurrós Traustadóttir 6, Katla María Magnúsdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Arna Kristín Einarsdóttir 2, Hulda Dís Þrastardóttir 1, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 7/1, 25,9% – Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 3, 33,3%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.