ÍBV byrjaði úrslitakeppni Olísdeildar kvenna af miklum krafti í dag þegar liðið lagði Stjörnuna, 21:17, í Vestmannaeyjum í fyrsta leik liðanna. Eyjaliðið getur þar með tryggt sér sæti í undanúrslitum endurtaki það leikinn í annarri viðureign liðanna sem fram fer í TM-höllinni í Garðabæ á sunnudaginn.
Eftir að hafa tapaði tveimur leikjum fyrir Stjörnunni á keppnistímabilinu var ljóst frá upphafi að ÍBV-liðið ætlaði sér ekki að sætta sig við þriðja tapið í röð.
ÍBV-liðið lék frábæran varnarleik frá upphafi til enda og hafði m.a. fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 10:6. Aðeins tvisvar sinnum var jafnt í leiknum, 0:0 í byrjun og 1:1. Eftir það var ÍBV með stjórn á leiknum. Varnarleikurinn var afar traustur og Marta Wawrzykowska var vel á verði í markinu og lauk leiknum með liðlega 41% hlutfallsmarkvörslu.
Eftir hafa verið með yfirhöndina í fyrri hálfleik þá má segja að ÍBV hafi nánast gert út um leikinn í byrjun síðari hálfleiks. Eftir aðeins fimm mínútur var staðan orðin 15:7. Róður Stjörnunnar var þá orðinn enn þyngri og léttist lítt þegar á leið þótt aðeins drægi saman með liðunum.
Karolina Olszowa fór á kostum í vörn ÍBV. Hún var með sjö stöðvanir og varði þrjú skot.
Heiða Ingólfsdóttir markvörður Stjörnunnar lék afar vel og var með nærri 46% hlutfallsmarkvörslu. Það dugði skammt þar sem sóknarleikur liðsins var aldrei eins og hann á að sér að vera.
Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 6, Ásta Björt Júlíusdóttir 6, Harpa Valey Gylfadóttir 4, Karolina Olszowa 1, Ólöf María Stefánsdóttir 1 Elíasa Elíasdóttir 1, Lina Cardell 1, Sunna Jónsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 12, 41,4%.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 6, Eva Björk Davíðsdóttir 5, Sólveig Lára Kjærnested 2, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Anna Karen Hansdóttir 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1.
Varin skot: Heiða Ingólfsdóttir 11, 45,8% – Tinna Húnbjörg Einarsdóttir 1, 11,1%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.