- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stjarnan úr leik eftir hetjulega baráttu

Tandri Már Konráðsson fyrirliði Stjörnunnar. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

Stjarnan er fallin úr leik á Íslandsmótinu í handknattleik eftir hetjulega frammistöðu og þriggja marka sigur gegn Haukum í síðari undanúrslitaleik liðanna í Schenkerhöllinni í kvöld, 32:29. Stjarnan var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11. Haukar sluppu fyrir horn, unnu samtals 57:55, og leika til úrslita við annað hvort Val eða ÍBV sem útkljá sína rimmu síðar í kvöld.

Haukar komust í 10:8 áður en allt fór í baklás hjá liðinu og það skoraði ekki um langt skeið. Stjarnan nýtti tækifærið og skorað sjö mörk í röð og komst yfir, 15:10, skömmu áður en Haukum tókst að brjóta ísinn og skora 11. markið rétt fyrir hálfleik. Höfðu þá liðið 12 mínútur á milli marka hjá deildarmeisturunum.


Stjarnan hélt fjögurra til fimm marka forystu framan af síðari hálfleik. Baráttan var gríðarleg í vörninni og sóknarleikurnn gekk vel, alltént þannig að Haukar fengu lítið sem ekkert af hraðaupphlaupum.


Haukarnir gáfust þó ekki upp, enda þekktir af öðru en uppgjöf. Þeir reyndu að færa sér mistök Stjörnumanna í nyt og tókst það all vel. Þeir náðu muninum niður í tvö mörk, 23:21. Yfirvegunin minnkaði hjá Stjörnumönnum þegar á leið, taugarnar sögði eflaust einnig til sín.


Darri Aronsson jafnaði metin fyrir Hauka, 24:24, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Róðurinn hafði verulega þyngst hjá Stjörnunni og Patrekur Jóhannesson tók sitt síðara leikhlé. Stjörnumenn fengu aukinn kraft við leikhléið og náðu þriggja marka forystu, 28:25, á fjögurra mínútna kafla áður en Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, boðaði til leikhlés.

Fimm mínútum fyrir leikslok var forskot Stjörnunnar orðið fjögur mörk, 29:25, og þeir þar með búnir að skora fleiri mörk á útivelli en Haukar gerðu í fyrri leiknum. Spennan var mikil. Heimi Óla Heimissyni var vísað af leikvelli þegar tvær mínútur og 10 sekúndur voru til leiksloka og Haukar voru tveimur mörkum undir, 29:27. Það sem eftir lifði leiks var munurinn ýmist tvö eða þrjú mörk. Haukar tóku sitt síðasta leikhlé þegar hálf mínúta var eftir og Stjarnan var þremur mörkum yfir, 31:28. Garðbæingar léku þá maður á mann. Nær komust leikmenn Stjörnunnar ekki að vinna stærra.


Mörk Hauka: Brynjólfur Snær Brynjólfsson 6, Stefán Rafn Sigurmannsson 4/1, Darri Aronsson 4, Þráinn Orri Jónsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Geir Guðmundsson 3, Orri Freyr Þorkelsson 2/2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Halldór Ingi Jónasson 1, Heimir Óli Heimisson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16, 34%.
Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 10, Starri Friðriksson 6, Leó Snær Pétursson 4/4, Björgvin Þór Hólmgeirsson 4, Pétur Árni Hauksson 3, Hafþór Már Vignisson 3, Sverrir Eyjólfsson 1, Brynjar Hólm Grétarsson 1.
Varin skot: Brynjar Darri Baldursson 13, 35% – Sigurður Dan Óskarsson 5, 50%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -