- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stjórnin sagði af sér vegna ágreinings um fortíðarskuldir

- Auglýsing -

Stjórn handknattleiksdeildar Gróttu hefur sagt af sér og skilað umboði sínu til aðalstjórnar félagsins. Þetta staðfesti Bragi Björnsson, formaður aðalstjórnar Gróttu, þegar handbolti.is náði tali af honum í dag. Bragi staðfesti einnig að ástæða afsagnarinnar væri ágreiningur um uppgjör á skuld fyrri stjórna handknattleiksdeildarinnar við aðalstjórn. Samkvæmt heimildum handbolta.is mun skuldin nema 23 milljónum króna og hefur safnast upp á síðustu árum.


Stjórnin sem nú hefur sagt af sér tók við í sumar. Hún vill ekki taka við skuldinni og heldur því fram að hún sé tilkomin vegna þess að aðalstjórn Gróttu hafi ekki rækt skyldur sínar á undanförnum árum með að hafa eftirlit og veita stjórnum deilda félagsins samþykki fyrir skuldbindingum.


Þar með hafi aðalstjórn brugðist í hlutverki sínu með að hafa eftirlit með rekstri deildarinnar á fyrri tíð en á sama tíma tekið að sér að standa skil á skuldbindingum sem hún hafi aldrei veitt heimild fyrir. Þess vegna beri aðalstjórn ábyrgð á skuldinni og eigi að sitja uppi með hana.


Aðalstjórn mun hafa byrjað að ganga á eftir uppgjöri á 23 milljóna skuldinni fljótlega eftir að ný stjórn handknattleiksdeildar tók við í sumar. Samkvæmt heimildum lagði aðalstjórn m.a. fram drög að samkomulagi um að handknattleiksdeildin greiddi skuldina upp á næstu 20 árum. Fráfarandi stjórn handknattleiksdeildar segir ekkert slíkt koma til greina.


Það er skoðun stjórnar handknattleiksdeildarinnar, sem sagði af sér fyrir helgina, að ábyrgðin vegna þessarar skuldar sé alfarið á höndum aðalstjórnar.


Heimildir handbolta.is herma einnig að hin nýhætta stjórn handknattleiksdeildar Gróttu hafi óskað eftir að skuldin yrði felld niður og félli þar með á aðalstjórn félagsins. Þeirri kröfu mun hafa verið hafnað. Þar við situr eftir því sem næst verður komist.

Skuldin handknattleiksdeildar er nokkurra ára gömul, eftir því sem næst verður komist og mun hafa safnast upp á nokkurra ára tímabili. Núverandi formaður aðalstjórnar var ekki formaður félagsins, Bragi Björnsson, þegar til hennar var stofnað af hálfu handknattleiksdeildar Gróttu.


„Ég hitti stjórnina á fundi á þriðjudaginn. Þangað til að minnsta kosti ætla ég ekki að vera með neinar yfirlýsingar vegna þessa mál,“ sagði Bragi Björnsson formaður í samtali við handbolta.is.

Uppfært kl. 18.31: Málsmetandi maður Gróttumaður sem handbolti.is virðir trúnað við, gerir eftirfarandi athugasemd við málsgrein hér að ofan:

„Það var stjórn deildarinnar sem tók málið [þ.e. skuldina, innskot blm] upp við aðalstjórn. Það hefur ekki verið nein umræða á vettvangi aðalstjórnar Gróttu um uppgjör skuldarinnar undanfarin ár. Frumkvæðið nú kom alfarið frá stjórn deildarinnar.“

Uppfært kl. 20.35: Enn berast athugsemdir, að þessu sinni frá fráfarandi stjórn handknattleiksdeildar.

Rangt er að ekki hafi verið nein umræða á vettvangi aðstjórnar um uppgjör handknattleiksdeildar. Þess sést m.a. stað í fundarferðum aðalstjórnar 14. maí og 11. júní 2018 svo dæmi sé tekið. Þegar fráfarandi stjórn handknattleiksdeildar tók við í vor kom í ljós að skuld handknattleiksdeildar við aðalstjórn hafði lækkað um eina milljón á milli ára. Þegar leitað var eftir skýringum kom í ljós að kostnaður við bifreið starfsmanns aðalstjórnar Gróttu hafði verið bókfærður til lækkunnar á skuld handknattleiksdeildar. Einhver umræða hlýtur að hafa átt sér stað innan aðalstjórnar áður ákveðið var að fara þá leið. Í framhaldi fór stjórnin handknattleiksdeildar þess á leit við aðalstjórn að skuldin yrði látin niður falla enda henni óviðkomandi. Ekki var orðið við þeim óskum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -