Valsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason er kominn í burðarhlutverk í vörn toppliðs þýsku 1. deildarinnar Rhein-Neckar Löwen aðeins örfáum mánuðum eftir að hann gekk til liðs við félagið. Varnarleikurinn hefur um leið verið til fyrirmyndar og til að mynda skoraði Erlangen aðeins 20 mörk gegn Löwen-liðinu á heimavelli sínum á sunnudaginn þegar „Ljónin“ sóttu tvö stig í 26:20 sigri
Ýmir Örn segist vera ánægður með það hlutverk sem hann hafi innan liðsins en það fari fremur vaxandi en hitt. „Ég hef mikið spilað og er auk þess ánægður með mína frammistöðu og svo er einnig að skilja á öðrum hér,“ sagði Ýmir Örn hress og kátur þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í gær.
Heldur mönnum við efnið
„Ég stjórna vörninni ásamt hinum þristinum, reyni að halda mönnum við efnið og hafa líf í vörninni þannig að menn séu á tánum frá upphafi til enda leikja. Það er svolítið mitt og er þar með í svipuðu hlutverki og hjá landsliðinu. Einnig fæ ég að hlaupa með fram í seinni bylgjunni í hraðaupphlaupum. Gegn Erlangen á sunnudaginn þá lék ég fyrsta stundarfjórðunginn í seinni hálfleik jafnt í vörn sem sókn, þá á línunni. Hlutverk mitt fer vaxandi sem er flott,“ sagði Ýmir Örn sem greinilega hefur fallið vel inn í liðið hjá Rhein-Neckar Löwen síðan hann kom til þess í febrúar, skömmu eftir að hafa verið aðsópsmikill í varnarleik íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Svíþjóð í janúar.
Ýmir Örn náði nokkrum leikjum í febrúar og mars áður en keppni var sett í salt og síðan slegin af þegar ljóst varð að kórónuveiran var ekki komin til nokkurra daga dvalar í Þýskalandi á vormánuðum.
Fékk strax stórt tækifæri
„Það var draumur að fá þetta tækifæri. Í fyrsta leik í febrúar þá sat ég á bekknum fyrstu tíu mínútunar en fór eftir það út á völlinn í baráttuna. Segja má að ég hafi fengið að spila mikið meira en ég reiknaði með í upphafi. Það er bara frábær staðreynd,“ sagði Ýmir Örn.
Álagið er mikið í þýsku 1. deildinni og þegar við bætast leikir í Evrópukeppninni þá er eins gott fyrir menn að vera klára í slaginn. Engir leikir eru auðveldir. Valinn maður er í hverju rúmi í liðum þýsku 1. deildarinnar og ekki hægt að slaka á eina einustu mínútu. „Áherslan er alltaf að aukast á vörn og markvörslu. Kannski hefur það alltaf verið þannig en þunginn er vaflaust enn meira að sækja á þann veginn.“
Alinn upp við væntingar hjá Val
Ýmir Örn segist hafa lagt og leggja enn mikla vinnu í að styrkjast sem handknattleiksmaður. „Ég kom úr frábæru umhverfi hjá Val þar sem mikill metnaður eru á öllum sviðum handboltans. Ég er alinn upp við væntingar og pressu og þess vegna koma mér kröfurnar hjá Rhein-Neckar ekki á óvart. Þær eru hins vegar ennþá meiri hér enda er maður kominn í atvinnumannaklúbb. Maður gerir bara allt til þess að halda sér ferskum og um leið leggja á sig aukavinnu til þess að verða ennþá betri og reiðubúnari í að takast á við framtíðina.“
Ýmir Örn segist hafa æft mjög vel í sumar og ekki slegið slöku við þann tíma sem hann dvaldi heima á Íslandi.
Greip tækifærið
Reynslan af þátttöku í Evrópuleikjum með Val og af stórmótum með landsliðinu segir Ýmir Örn að hafi nýst sér vel þegar komið var í hinn harða heim atvinnumennskunnar. „Svo kom þetta tækifæri og við því var ekki hægt að segja nei. Rhein-Neckar er frábær klúbbur sem gerir ríkar kröfur til leikmanna sinn enda kemur ekkert annað til greina en að vera á toppnum sem er sú staða sem handboltamaður vill að sjálfsögðu alltaf vera í.“
Brúðkaup á haustdögum
„Þess utan þarf manni að líða vel utan vallar með fjölskyldunni. Það skiptir ekki síður máli. Við höfum komið okkur vel fyrir hér og njótum þess að vera eins mikið saman og hægt er þegar ekki eru æfingar eða leikir,“ segir Ýmir Örn sem kvæntist Margréti Vignisdóttur í haust rétt áður en kórónuveira blossaði upp á ný í Þýskalandi. Þau eiga tveggja ára gamlan son.
„Við ætluðum að gifta okkur heima í sumar en það tókst ekki svo við létum verða að því hér úti í haust. Vorum heppin að foreldrar okkar gátu komist út og verið með okkur í fjóra daga. Rétt eftir að þau fóru blossaði veiran upp aftur.
Við erum mjög ánægð hérna úti. Það gengur vel og ekki yfir neinu að kvarta persónulega og prívat,“ segir Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður og atvinnumaður í handknattleik hjá Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.