„Við erum virkilega ánægðar með að ná þessum áfanga. Ég er mjög stolt af liðinu. Þetta er alveg frábært,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður Hauka við handbolta.is eftir að Haukar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í kvöld með öðrum sigri á HC Galychanka Lviv í 16-liða úrslitum keppninnar, 24:22. Elín Klara og félagar brutu þar með blað í sögu félagsins. Kvennalið Hauka hefur aldrei náð svo langt í Evrópukeppni.
Frábær varnarleikur
Eftir fremur jafnan fyrri hálfleik og viðureign í gær þá lagði frábær upphafskafli í síðari hálfleik grunn að sigri Hauka á HC Galychanka Lviv frá Úkraínu. Liðið breytti stöðunni úr 13:10 í hálfleik í 21:12 á liðlega 15 mínútna kafla. Elín Klara segir stórbættan varnarleik hafa ráðið þar mestu um.
„Varnarleikurinn var virkilega þéttur framan af síðari hálfleik sem varð til þess að við fengum ekki á okkur mark í langan tíma,“ sagði Elín Klara en Haukar skoruðu fimm fyrstu mörkin í síðari hálfleik og sjö af fyrstu átta.
„Um leið fengum við hraðaupphlaup sem skóp sigurinn,“ sagði Elín Klara.
Tapaðir boltar
Á síðustu 10 mínútunum misstu Hauka leikinn aðeins frá sér og leikmenn HC Galychanka Lviv komust á bragðið á ný. „Við vorum með alltof marga tapaða bolta sem varð til þess að við fengum mörk í bakið eftir hraðaupphlaup. En sem betur fer þá kláruðum við þetta,“ sagði Elín Klara sem fékk afar slæma byltu á síðustu mínútu leiksins þegar hún var harkalega stöðvuð í gegnumbroti.
Vonandi í lagi
Byltan varð til þess að Elín Klara skall harkalega niður á vinstri mjöðmina. Satt að segja varð mörgum áhorfendum ekki um sel, þar á meðal tíðindamanni handbolta.is. „Vonandi verður þetta í lagi,“ sagði Elín Klara sem þegar var komin með kælingu á mjöðmina strax í kjölfarið.
Stórleikur á miðvikudag
Framundan er stórleikur hjá Haukum á miðvikudagskvöld klukkan 19.30 gegn Val á Ásvöllum í Olísdeild kvenna áður en Valur leikur síðari leik sinn í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar á heimavelli á laugardaginn. Valur getur fylgt Haukum eftir í átta liða úrslit en jafntefli varð í fyrri viðureign Vals og Málaga Costa del Sol ytra í gær.