- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stoltur af strákunum – ekkert sjálfsagt að rífa sig upp

Arnór Atlason þjálfari TTH Holstebro. Mynd/IHF/Sasa Pahic Szabo / kolektiff
- Auglýsing -

„Við erum ánægðir með að vinna fimmta sætið úr því sem komið var í keppninni. Það voru okkur vonbrigði að ná ekki inn í undanúrslitin. Þegar svo er komið var ekkert sjálfsagt að rífa sig upp og vinna tvo síðustu leikina, gegn Færeyjum og Portúgal sem bæði hafa leikið vel á mótinu. En við rifum okkur upp og ég er stoltur af strákunum og ánægður fyrir þeirra hönd að ljúka unglingalandsliðsferlinum með tveimur sigrum,“ sagði Arnór Atlason þjálfari U21 árs landsliðs Danmerkur í samtali við handbolta.is. eftir að lið hans lagði Portúgal, 30:25, í viðureign um fimmta sætið á heimsmeistaramótinu í Berlín í dag.

Töpuðu fyrir sterkustu liðunum

„Litið til baka þá töpuðum við tveimur leikjum í mótinu, gegn Ungverjum og Þjóðverjum, sem eru að mínu mati með tvö bestu liðin í mótinu. Rætt hefur verið um að við værum óheppnir á leið okkar að undanúrslitunum en um það þýðir ekki að tala. Bæði lið voru betri en við þegar á hólminn var komið. Ég er svekktur fyrir hönd strákanna að þeir hafi ekki fengið tækifæri til þess að leika til verðlauna,“ sagði Arnór sem hefur þjálfað þennan árgang (2002) danska unglingalandsliðsins undanfarin þrjú ár en lætur nú staðar numið.

Margt gott gerst á 3 árum

„Það hefur margt gott gerst á þremur árum. Mitt verkefni og teymisins sem með mér hefur unnið hefur verið að búa strákana undir að koma inn í A-landsliðið þannig að þeir verði þess megnugir að vinna til verðlauna með danska landsliðinu í framtíðinni. Svoleiðis er okkar starfslýsing í stuttu máli.“

Á eitthvað í þeim

„Ég vona innilega að sem flestir fái tækifæri til þess að leika með A-landsliðinu í framtíðinni. Einn úr hópnum hefur þegar leikið með A-landsliðinu, Thomas Arnoldsen. Ég mun fylgjast grannt með þeim á næstu árum. Manni finnst eins og ég eigi eitthvað í þeim,“ sagði Arnór Atlason sem verður aðstoðarþjálfari A-landsliðs Íslands og aðalþjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Team Tvis Holstebro frá og með næsta keppnistímabili.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -