- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stoltur yfir torsóttum sigri

Það verður spennandi að fylgjast með Vals í Evrópudeildinni í handknattleik í vetur. Mynd/J.L.Long

„KA-menn voru frábærir og reyndust okkur mjög erfiðir. Þegar við bættist að okkar aðalsmerki, vörn og markvarsla, var ekki upp á það besta þá vorum við í vandræðum. Krafturinn var mikill í KA-mönnum. Fyrir vikið er ég þeim mun stoltari af strákunum að hafa náð að vinna. Við lentum í mótlæti og unnum okkur úr því,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Coca Cola-bikarmeistara Vals annað árið í röð eftir sigur á KA, 36:32, í úrslitaleik á Ásvöllum í dag.


„Við vorum undir allan fyrri hálfleikinn og framan af þeim síðari. Þar af leiðandi hefði sigurinn getað fallið þeim megin eins og hjá okkur. Okkur tókst að ná frumkvæðinu á góðum tíma, eftir um tíu mínútur í síðari hálfleik. Mér leið betur þegar það tókst. Frumkvæðið var okkar megin eftir það. Sóknarleikurinn gekk vel. Við skoruðum og skoruðum og tókst þar með að vinna aðeins upp það sem miður gekk í vörninni,“ sagði Snorri Steinn sem átti skiljanlega erfitt með leyna gleði sinni enda ekki ástæða til eftir að hafa stýrt Val til sigurs í bikarkeppninni annað árið í röð.


„Ég er stoltur og glaður yfir þessum sigri og með þennan titil. Hann er bæði mikilvægur fyrir liðið og mig sjálfan. Þar með hef ég allavega unnið einn titil tvö ár í röð,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -