- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stór gluggi sem opnast hjá Elverum

Aron Dagur Pálsson er kominn til Noregsmeistara Elverum. Mynd/Alingsås
- Auglýsing -

„Að komast til Elverum er stór gluggi sem getur opnað fleiri möguleika fyrir mann,“ sagði Aron Dagur Pálsson við handbolta.is í dag eftir að tilkynnt var að hann hafi skrifað undir samning um að leika með norska meistaraliðinu Elverum út keppnistímabilið. Aron Dagur hefur síðustu mánuði leikið með Guif í Eskilstuna.


„Þetta gekk mjög hratt fyrir sig. Ég heyrði fyrst af áhuga Elverum í gær og í framhaldinu var gengið frá samningi úr keppnistímabilið. Helsta ástæða þess að málið gekk svo hratt fyrir sig skilst mér að sé vegna þess að í dag er lokadagur til þess að skila inn breytingum á leikmannahópi liða sem taka þátt í Meistaradeild Evrópu,“ sagði Aron Dagur. Eitthvað er um meiðsli í leikmannahópi Elverum og þess vegna grípa forráðamenn liðsins til þess að krækja í fleiri leikmenn.


Elverum hefur verið yfirburðalið í norskum karlahandknattleik árum saman og leikur í Meistaradeild Evrópu sem er stór gluggi fyrir þá leikmenn sem standa sig vel. Þegar er einn íslenskur handknattleiksmaður innan vébanda félagsins, landsliðsmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson.


„Hér er á ferðinni frábært tækifæri fyrir mig að spreyta mig á aðeins hærra leveli sem er klárlega skref upp á við,“ sagði Aron Dagur sem er að pakka niður í Eskilstuna í Svíþjóð og reiknar með að verða mættur til Elverum á fimmtudaginn. Um kvöldið leikur liðið við Kiel í Hákonshöll í Lillehammer. Hann tekur ekki þátt í leiknum en verður á meðal áhorfenda. Eftir það tekur alvaran við hjá Aroni Degi í herbúðum norsku meistaranna.


Fyrsti leikur Arons Dags með Elverum getur orðið gegn Bækkelaget Håndball í norsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.


Aron Dagur lýkur miklu lofsorði á Kristján Andrésson og stjórnendur Guif Eskilstuna fyrir að hafa tekið vel í vistaskiptin um leið og þau komu upp á borðið. „Eina skilyrðið sem þeir hjá Guif settu var að þeir gætu náði í mann í staðinn fyrir mig. Eftir því sem ég kemst næst þá hefur það tekist,“ sagði Aron Dagur Pálsson handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -