Stórleikur Elvars Arnar Jónssonar fyrir Melsungen dugði skammt þegar liðið tapaði í heimsókn sinni til annars Íslendingaliðs, Gummersbach, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag. Selfyssingurinn skoraði níu mörk og var markahæsti leikmaður vallarins þegar lið hans tapaði með sex marka mun, 37:31, í Schwalbe-Arena í Gummersbach. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach.
Elliði Snær Viðarsson fékk beint rautt spjald á 43. mínútu fyrir leikbrot. Hann hafði þá skorað fimm mörk.
Gummersbach er í sjötta sæti með 14 stig að loknum 12 leikjum. Melsungen er í þriðja sæti en er nú þremur stigum og einum leik á eftir Füchse Berlin sem er efst. Magdeburg er þar á milli tveimur stigum frá Berlínarliðinu. Füchse Berlin og Magdeburg leik ekki í þýsku 1. deildinni um helgina vegna þátttöku í heimsmeistaramóti félagsliða en liðin mætast í úrslitaleik mótsins síðar í dag.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki fyrir Melsungen í leiknum. Hann átti tvö markskot sem geiguðu. Einnig var Arnari Frey vikið einu sinni af leikvelli.
Ekkert íslenskt mark
Rhein-Neckar Löwen tapaði fyrir THW Kiel í SAP-Arena í Mannheim, 31:25. Hvorki Arnór Snær Óskarsson né Ýmir Örn Gíslason skoruðu mark fyrir Rhein-Neckar Löwen. Ýmir Erni var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Eftir tap fyrir Hannover-Burgdorf í vikunni þá tókst leikmönnum THW Kiel að rétt úr kútnum í dag, ekki síst við varnarleikinn sem hefur á tíðum ekki verið nægilega öflugur á keppnistímabilinu.
Þetta var fyrsta tap Rhein-Neckar Löwen á heimavelli í deildarkeppninni á tímabilinu.
Stöðuna og næstu leiki í þýsku 1. deildinni er að finna hér ásamt stöðunni í fleiri deildum handknattleiks í Evrópu.