Ómar Ingi Magnússon átti stórleik fyrir Magdeburg í kvöld þegar liðið steig stórt skref í átt að átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í kvöld með átta marka sigri á Eurofarm Pelister, 32:24. Leikið var í Norður-Makedóníu. Ómar Ingi skoraði 10 mörk í leiknum og bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn á vellinum. Aðeins eitt skot geigaði hjá Ómari í leiknum. Magdeburg stendur þar með vel að vígi fyrir síðari leikinn á heimavelli eftir viku.
Þrjú önnur Íslendingalið voru í eldlínunni í fyrri leikjum 16-liða úrslita Evrópudeildarinnar í kvöld. Standa þau öll vel að vígi eftir leikina. Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar unnu CSKA Moskvu með tveggja marka mun á heimavelli, 33:31. Viktor Gísli stóð allan leikinn á milli stanganna í marki GOG ef undan er skilið eitt vítakast.
Ýmir Örn Gíslason eru í góðum málum eftir tveggja marka sigur á Nexe frá Króatíu í viðureign sem fram fór á heimavelli Nexe.
Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Kadetten Schaffhausen frá Sviss gerðu jafntefli við Montpellier í leik sem fram fór í Frakklandi. Leikmenn Kadetten jöfnuðu metin í 24:24 og voru eftir það á undan að skora. Hugo Descat jafnaði metin fyrir Montpellier í blálokin, 27:27.
Úrslit kvöldsins:
Eurofarm Pelister – Magdeburg 24:32
Ómar Ingi Magnússon skoraði 10 mörk fyrir Magdeburg.
GOG – CSKA Moskva 33:31
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 10 skot í marki GOG, 25% hlutfallsmarkvarsla.
Montpellier – Kadetten 27:27
Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten.
Nexe – Rhein-Neckar Löwen 25:27
Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir RNL.
Medvedi – Nimes 30:25
Aon Fivers – Füchse Berlin 27:35
Sporting – Wisla Plock 25:29
Kristianstad – Ademar León – frestað um viku vegna kórónuveirusmita í herbúðum Ademar León.