Með miklum endaspretti þá vann íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, stórsigur á landsliði Chile, 35:18, í annarri umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Melina Merkouri-íþróttahöllinni í Aþenu í dag. Staðan var 12:6, þegar fyrri hálfleik var lokið. Með sigrinum innsiglaði íslenska liðið sér sæti á meðal þeirra 16 efstu á mótinu því ljóst er að annað af tveimur efstu sætum G-riðils kemur í hlut liðsins.
Á föstudaginn mætast landslið Íslands og Serbíu í uppgjöri um efsta sæti G-riðils. Flautað verður til leiks klukkan 17.15. Sigurliðið fer með tvö sig í milliriðil og mun standa betur að vígi í baráttu um sæti í átta liða úrslitum mótsins.
Íslensku piltarnir skoruðu sex fyrstu mörk leiksins í dag á fyrstu 17 mínútum leiksins. Eftir það réttu Chilemenn úr kútnum og virtust eiga í fullu tré við andstæðing sinn.
Framan af síðari hálfleik hélst munurinn fimm til sjö mörk. Þegar lengra leið jókst forskot íslenska liðsins og var 10 mörk, 22:12, þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Chilemenn virtust taka kipp með þremur mörkum í röð, 22:15. Nær komust þeir ekki. Íslensku piltarnir slógu upp sýningu síðustu mínúturnar og unnu með 17 marka mun, 35:18.
Tólf leikmenn af 16 skoruðu íslenskt mark í leiknum.
Mörk Íslands: Andri Finnsson 7, Einar Bragi Aðalsteinsson 6, Kristófer Máni Jónasson 4, Símon Michael Guðjónsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Arnór Viðarsson 3, Jóhannes Berg Andrason 2, Stefán Orri Arnalds 2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Róbert Snær Örvarsson 1, Jón Þórarinn Þorsteinsson 1, Tryggvi Þórisson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 12, 50% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 6, 50%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í Aþenu í textalýsingu hér fyrir neðan.