- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórsigur í fyrsta leik U17 ára stúlknanna á EM

U17 ára landsliðið vann stórsigur á Lettum í fyrstu umferð í B-deild EM í Litáen í dag. Mynd/Dagur
- Auglýsing -

U17 ára landslið Íslands í handknattleik kvenna lék við hvern sinn fingur í fyrsta leik sínum í B-deild Evrópumótsins í Klaipeta í Litáen í dag og gjörsigraði lið Letta, 35:23, eftir að hafa verið tíu mörkum yfir í hálfleik, 17:7.


Það var rétt á upphafsmínútunum sem skrekkur virtist vera í leikmönnum íslenska liðsins. Lettar skoruðu þrjú af fyrstu fimm mörkum leiksins. Fljótlega upp úr því skildu leiðir þannig að aldrei lék vafi á hvort liðið væri sterkara, og það mikið sterkara. Munurinn varð mestu 16 mörk, 25:9, áður en íslenska liðið slakaði á klónni og Lettar náðu að minnka muninn í átta mörk, 30:22, um skeið.

Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 9, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Amelía Dís Einarsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 3, Sara Dröfn Richardsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Elinborg Katla Þorbjörnsdóttir 2.
Ingunn María Brynjarsdóttir varði 8 skot og Elísa Helga Sigurðardóttir varði 1 skot.


Íslenska liðið mætir Tyrkjum á morgun. Tyrkir töpuðu fyrir Pólverjum með eins marks mun í morgun, 21:20. Viðureign Íslands og Tyrklands hefst klukkan 10 í fyrramálið og verður hægt að fylgjast með útsendingu frá leiknum án endurgjalds á ehftv.com.


Eftir leikinn við Tyrki tekur við tveggja daga hlé frá leikjum hjá íslenska liðinu áður en það mætir Hvít-Rússlandi á miðvikudaginn og Póllandi á fimmtudag.
Ísland leikur í B-riðli mótsins. Í A-riðli eru landslið Spánar, Litáen, Norður Makedóníu, Finnlands og Kósovó.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -