Íslandsmeistarar Vals unnu stórsigur á KA/Þór, 32:19, í lokaleik 9. umferðar Olísdeildar kvenna í handknattleik í KA-heimilinu í dag. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 15:10, Val í vil.
Valur hefur þar með komið sér fyrir við hlið Hauka með 16 stig í öðru af tveimur efstu sætum Olísdeildar. Skera liðin tvö sig nokkuð úr öðrum í deildinni um þessar mundir. KA/Þór er í sjötta sæti með fimm stig.
Liðin fylgdust að fyrstu 10 til 15 mínútur leiksins áður en Valur sleit stig frá. Talsvert var um einföld mistök í sóknarleik KA/Þórs sem Valur nýtti til hraðaupphlaupa með ágætum árangri.
Í síðari hálfleik voru yfirburðir Valsliðsins mjög miklir.
Tvær hlutu höfuðhögg
Sex mínútum fyrir leikslok fékk Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir, hornamaður KA/Þórs, boltann í höfuðið. Eftir að hafa hlotið aðhlynningu innan vallar var Kristín borin af leikvelli.
Hafdís Renötudóttir, markvörður Vals og landsliðsins, fékk einnig skot í höfuðið snemma leiks og varð að fara af leikvelli. Vegna þess að Hafdís var ekki til taks hljóp Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í skarðið sem varamarkvörður undir lokin þegar Söru Sif Helgadóttur var vikið af leikvelli.
Ein umferð er eftir óleikin í Olísdeild kvenna áður en hlé verður gert fram yfir áramót vegna þátttöku kvennalandsliðsins á HM. Leikirnir fjórir í 10. umferð verða háðir fimmtudaginn 16. og föstudaginn 17. nóvember. Þeir eru: ÍBV - Valur. KA/Þór - ÍR. Fram - Stjarnan. Afturelding - Haukar.
Staðan og næstu leikir í Olísdeild kvenna.
Mörk KA/Þórs: Nathalia Soares Baliana 5, Isabella Fraga 4, Kristín A. Jóhannsdóttir 3, Rafaele Nascimento Fraga 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 13, 28,9%.
Mörk Vals: Hildigunnur Einarsdóttir 8, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5/1, Lilja Ágústsdóttir 5, Sigríður Hauksdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 3, Morgan Marie Þorkelsdóttir 2, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 10, 50% – Hafdís Renötudóttir 2, 18,2%.