- Auglýsing -
- Auglýsing -

Styttist í frumsýningu á HM – síðasta æfing – myndir

Leikmenn hitaprófaðir á leið inn í íþróttahöllina. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla er þessa stundina á æfingu í keppnishöllinni, Heliopolis sporting club íþróttahöllinni, ekki New Capital Sport Hall þar sem Ísland mætir landsliði Portúgals í upphafsleik sínum á HM klukkan 19.30 á morgun. Allir 20 leikmenn liðsins taka þátt í æfingunni og virðist vera ágætt ástand á mönnum og léttur og góður andi svífur yfir vötnum. Eftirvænting ríkir og menn vilja ólmir fara að hefja keppnina, snúa sér að aðalatriðinu, tilgangi komunnar hingað til Kaíró.


Eins og áður á stórmótum þá fer talsverður hluti undirbúnings leikja fram með leikgreiningu og fundum þar sem leikmenn eru fóðraðir á upplýsingum um eigin leik og andstæðinganna. Íslenska liðið var á einum slíkum fundi áður en það fór á æfinguna í dag.

Ágúst Elí Björgvinsson horfir árvökulum augum í átt til boltans. Mynd/HSÍ

Sextán leikmenn verða á skýrslu í leiknum á morgun en reiknað er með að allir 20 leikmenn liðsins verði skráðir til leiks. Það mun vera heimilt nú vegna ástandsins vegna kórónuveirunnar. Þetta atriði mun þó skýrast betur í kvöld á tæknifundi sem forsvarsmenn íslenska landsliðsins sitja.

Skipt um skó fyrir æfinguna. Mynd/HSÍ

Vel hefur farið um íslenska landsliðshópinn á St Regis New Capital Almasa Royal Palace hótelinu enda varla annað hægt á hóteli með svo löngu nafni. Enginn hefur greinst smitaður af kórónuveirunni enda vel gætt að sóttvörnum innan liðsins en einnig á hótelinu þar sem ekki sést maður á ferli án grímu og margir notast við þunna gúmmíhanska. Matsalir eru aðskildir milli liða og eins borða þeir fáu fjölmiðlamenn sem dvelja á hótelinu ekki í sama sal og leikmenn. Leikmenn búa ekki á sömu hæð og fjölmiðlamenn og hafa annan útgang. Þess utan er svæðið kyrfilega girt af og vopnaður vörður við innganginn.

Starsfólk hótelsins býr á hluta hótelsins, í byggingu 200 metrum frá aðalinnganginum. Þangað flutti það 7. janúar eftir að kristnir hér í landi höfðu haldið jól en margir starfsmenn eru kristinnar trúar. Enginn starfsmaður fær að fara út af hótelsvæðinu fyrr en um mánaðarmótin. Starfsfólkið fer í skimun á 48 stunda fresti.

Hvað sem því líður þá eru hér nokkrar myndir frá æfingunni í dag.

Björgvin Páll Gústavsson er mættur á sitt fjórtánda stórmót með landsliðinu. Mynd/HSÍ
Sigvaldi Björn Guðjónsson tekur þátt í heimsmeistaramóti í annað sinn. Mynd/HSÍ
Fyrirliðinn Arnór Þór Gunnarsson er á sínu níunda stórmóti, þar af fimmta heimsmeistaramóti. Mynd/HSÍ
Alexander Petersson, Sigvaldi Björn Guðjónsson, Ómar Ingi Magnússon, Kári Kristján Kristjánsson, Tomas Svensson markvarðaþjálfari, Viggó Kristjánsson. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -