Darri Aronsson handknattleikmaður hjá franska 1. deildarliðinu US Ivry er er farinn að sjá fyrir endann á erfiðum vikum vegna meiðsla. Hann er vongóður um að geta leikið sinn fyrsta leik fyrir liðið eftir miðjan næsta mánuð. Darri ristarbrotnaði í júlí, skömmu áður en hann fór til Parísar. Um álagsbrot var að ræða.
„Staðan á mér er góð. Ég fer á miðvikudaginn í síðustu röntgen myndatökuna þar sem úr fæst skorið hvenær ég má byrja að hlaupa á ný,“ sagði Darri við handbolta.is í morgun.
Í bolta eftir 2 til 3 vikur
„Búist er við að ég geti verið mættur í boltann eftir tvær til þrjár vikur. Ég er þar af leiðandi bjartsýnn eftir endurhæfingu síðustu vikna,“ sagði Darri ennfremur en hann hefur verið undir handarjaðri sérfræðinga Parísarliðsins síðan rétt eftir miðjan júlí að hann fór út.
Gangi allt að óskum á næstunni vonast Darri til að fyrsti leikurinn með US Ivry verði á heimavelli gegn Montpellier 21. október, strax að loknum hléi sem gert verður á deildarkeppninni í fyrri hluta næsta mánaðar vegna landsleikja í undankeppni Evrópumótsins 2024.
US Ivry kom upp úr 2. deild í vor eftir eins árs veru. Liðið hefur unnið einn leik og tapað öðrum fram til þessa í 1. deildarkeppninni sem er nýlega hafin.
Darri samdi við US Ivry til þriggja ára snemma á þessu ári.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.