Ef vel gengur áfram við æfingar og endurhæfingu gæti Haukur Þrastarson leikið á ný með pólska meistaraliðinu Barlinek Industria Kielce innan tveggja næstu mánaða. Svo bjartsýnn er Tomasz Młosiek sjúkraþjálfari félagsins í samtali við EM Kielce.
Młosiek segir að vel gangi hjá Hauki sem varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í annað sinn á ferlinum í byrjun desember á síðasta ári. Haukur hóf endurhæfingu hér á landi snemma árs undir árvökulum augum Jóns Birgis Guðmundssonar sjúkraþjálfara á Selfossi.
Tveir í sömu sporum
Samherji Hauks, Paweł Paczkowski, er í sömu sporum. Hann sleit einnig krossband í hné á síðustu leiktíð. Młosiek sjúkraþjálfari segir að bjartsýni ríki vegna beggja leikmanna. Þeir hafi æft af krafti. Þeir fái áfram þann tíma sem þörf verði á til þess að verða fullgóðir. Næsta skref sé að koma þeim meira inn í æfingar með liðinu á keppnisvellinum. Það verði unnið skref fyrir skref.
Tekur mánuð eða tvo
„Það getur tekið mánuð eða tvo að koma þeim [Hauki og Paczkowski] inn í æfingar með liðinu,“ er haft eftir Młosiek sjúkraþjálfari sem hefur í mörg horn að líta þessar vikurnar.
Auk Hauks og Paczkowski er Egyptinn Hassan Kaddah að jafna sig af erfiðum meiðslum í ökkla, Svíinn Elliot Stenmalm er í endurhæfingu vegna brjóskloss og markvörðurinn Sandro Mestrić verður a.m.k. frá keppni fram yfir næstu áramót sökum meiðsla.