- Auglýsing -
- Auglýsing -

Suter tekur hatt sinn og staf fyrr en til stóð

Michael Suter stýrði landsliði Sviss í síðasta sinn á EM í síðasta mánuði. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Í gær var landsliðsþjálfari Króata látinn taka pokann sinn og í dag var röðin komin að Michael Suter sem stýrt hefur karlalandsliði Sviss í nærri átta ár að axla sín skinn, fimm mánuðum áður en starfssamningurinn rennur út.

Markmið náðust ekki

Ástæðan fyrir því að Suter hættir nú þegar er sú að markmið landsliðs Sviss á EM náðust ekki, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá handknattleikssambandi Sviss. Þar segir að tap fyrir Norður Makedóníu á EM hafi orðið til þess að landslið Sviss hafnaði í neðri styrkleikaflokki þeirra liða sem dregin voru saman í umspili fyrir HM. Af því leiðir að róðurinn verður þyngri í umspilinu en ella hefði verið.

Stóð ekki nýr samningur til boða

Legið hefur fyrir lengi að Suter stæði ekki til boða nýr samningur og nokkuð er um liðið síðan tilkynnt var að Andy Schmid fyrrverandi landsliðsmaður og einn fremsti handknattleiksmaður Sviss frá upphafi, taki við þjálfun landsliðsins í sumar. Schmid lagði skóna á hilluna eftir EM og leikur ekki einu sinni út leiktíðina með félagsliði sínu HC Kriens.

Mætir Schmid fyrr?

Uppsögn Suter í kjölfar þess að Schmid hættir fyrr að leika en til stóð þykir renna stoðum undir að sá síðarnefndi taki við starfi landsliðsþjálfara á næstu dögum og stýri landsliði Sviss í umspili um sæti á HM í vor gegn Slóvenum.

Suter stýrði landsliði Sviss í 91 landsleik, af þeim unnust 43, jafnmargir leikir töpuðust og fimm lauk með jafntefli. Matthias Gysin aðstoðarþjálfari og Jasko Camdzic hafa einnig tekið hatt sinn og staf.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -