Svartfjallaland fékk bronsverðlaun á Evrópumótinu í handknattleik kvenna eftir sigur á Frökkum í framlengdum háspennuleik í Ljubljana í kvöld, 27:25. Sigurinn var verðskuldaður.
Svartfellska liðið var sterkara lengst af leiksins og efldist við hverja raun. Frakkar virtust óstyrkir lengi vel og léku til að mynda alls ekki jafn vel í sókninni og í flestum leikjum sínum í mótinu. Eftir sigur í sex fyrstu viðureignum sínum beið franska liðið ósigur í tveimur þeim síðustu og fer heim án verðlauna í fyrsta sinn í háa herrans tíð.
Fyrirliði síðast – nú þjálfari
Þetta er aðeins í annað sinn sem Svartfjallaland vinnur til verðlauna á Evrópumóti kvenna í handknattleik en áratugur er liðin síðan landslið Svartfellinga varð Evrópumeistari. Þá var Bojana Popovic fyrirliði og burðarás landsliðsins. Í dag er hún í hlutverki landsliðsþjálfara. Tók við eftir vonbrigðin á EM fyrir tveimur árum.
Popovic kvaddi landsliðið sem leikmaður eftir EM 2012 og í kvöld lék Jovanka Radicevic sinn síðasta landsleik fyrir Svartfellinga eftir langan feril.
Töpuðu niður þræðinum í lokin
Svartfellingar voru marki yfir í hálfleik, 13:12, og tóku strax frumkvæðið í síðari hálfleik. Forskotið var tvö til þrjú mörk allt þar til tíu mínútur voru eftir. Þá kom átta mínútna kafli án marks hjá svartfellska liðinu. Frakkar gengu á lagið, jöfnuðu og komust yfir, 21:20, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Svartfellinga hrukku í gang og svöruðu með tveimur mörkum, 22:21.
Æsileg mínúta
Lokamínúta venjulegs leiktíma var æsilega spennandi. Frakkar hóf sókn marki undir en fengu dæmdan á sig ruðning þegar hálf mínúta var eftir. Svartfellingar sneri vörn í sókn og virtust hafa öll ráð í hendi sér. Frakkar vörðust maður á mann. Boltinn var dæmdur af Svartfellingum þegar innan við tíu sekúndur voru eftir. Itana Grbic hljóp illilega á sig og braut á frönskum leikmanni sem ætlaði að snúa vörn í sókn. Grbic fékk í kjölfarið rautt spjald og Frakkar vítakast sem Deuna Zaadi jafnað metin úr og tryggði Frökkum framlengingu.
Ekki vítamínsprauta
Ekki virkaði jöfnunarmark Frakka sem vítamínsprauta á liðið þegar komið var út í framlengingu. Í henni voru Svartfellingar ákveðnari frá upphafi til enda þótt þeir væru manni færri fyrstu tvær mínúturnar.
Mörk Svartfjallalands: Jovanka Radicevic 6, Djurdjina Jaukovic 6, Itana Grbic 4, Matea Pletikosic 4, Tatjana Brnovic 3, Ema Alivodic 2, Ivona Pavicevic 1, Ivana Godec 1.
Varin skot: Marta Batinovic 11, 37% – Marina Rajcic 0.
Mörk Frakklands: Estelle Nze Minko 4, Lucie Granier 4, Grace Zaadi 3, Deborah Lassource 3, Laura Flippes 3, Orlane Kanor 3, Chloe Valentini 2, Coralie Lassource 1, Pauletta Foppa 1, Tamara Horacek 1.
Varin skot: Cléopatre Darleux 10, 30% – Floriane Andre 2, 33%.