Svartfellingar unnu Serba með eins marks mun, 30:29, í fyrri leik kvöldsins í C-riðli Evrópumótsins í handknattleik karla í München í kvöld. Sigurinn gerir það að verkum að íslenska landsliðið er öruggt með sæti í millirðlakeppninni Evrópumótsins í Köln áður en viðureignin við Ungverja hefst klukkan 19.30.
Íslenska landsliðið hafnar aldrei neðar en í öðru sæti í riðlinum.
Svartfellingar hafa tvö stig en Serbar reka lestina með eitt stig. Ungverjar hafa fjögur stig og Íslendingar þrjú fyrir viðureignina. Sigurliðið í leiknum fer áfram með tvö stig í milliriðla, tapliðið ekkert. Verði jafntefli hefur hvort lið eitt stig.
Milliriðlakeppnin hefst á fimmtudaginn og stendur yfir fram á miðvikudaginn í næstu viku.
Svartfellingar voru dyggilega studdir af fjölmörgum Íslendingum í keppnishöllinni í München í kvöld. Leikurinn var nokkuð jafn. Svartfellingar voru komnir með þriggja marka forskot, 23:20, þegar um 10 mínútur voru til leiksloka. Serbar sóttu í sig veðrið og jöfnuðu, 28:28, og aftur 29:29. Nemanja Grbovic skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu.