Handknattleiksdómararnir Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma öðru sinni á þessu keppnistímabili í Evrópukeppni félagsliða á laugardaginn þegar þeir mæta til viðureignar norska liðsins Molde og sænsku meistaranna Skara HF í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar kvenna. Leikið verður í Molde Arena í Noregi.
Með Skara HF leika m.a. íslensku handknattleikskonurnar Aldís Ásta Heimisdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir. Síðari viðureign liðanna fer fram í Skara laugardaginn 4. október. Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja öðlast sæti í annarri og síðari umferð forkeppninnar.
Sigurður og Svavar dæmdu fyrri leik Malmö og Sävehof í forkeppni Evrópudeildar karla Malmö 31. ágúst.
Við snögga yfirferð á leikjum næstu helgar í forkeppni Evrópudeildar kvenna og í 2. umferð Evrópubikarkeppni kvenna rak handbolti.is ekki augun í nöfn annarra Íslendinga í hópi dómara eða eftirlitsmanna á leikjunum sem standa fyrir dyrum.