- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sveinn fetar í fótspor Íslendinga í Þýskalandi

Sveinn Jóhannsson leikmaður þýska liðsins GWD Minden. Mynd/GWD Minden
- Auglýsing -

Línumaðurinn Sveinn Jóhannsson hefur verið seldur til þýska 1. deildarliðsins GWD Minden frá danska liðinu Skjern. Samningur Sveins við GWD Minden er til eins og hálfs árs og hefur hann þegar tekið gildi. Sveinn verður þar með klár í slaginn með liðinu þegar keppni hefst á nýjan leik í þýsku 1. deildinni í byrjun febrúar að loknu heimsmeistaramótinu sem stendur yfir.


Sveinn fetar þar með í fótspor margra íslenskra handknattleiksmanna sem leikið hafa með GWD Minden í gegnum árin. Má þar m.a. nefna Axel Axelsson, Ólaf H. Jónsson, Jón Pétur Jónsson, Sigurð Bjarnason, Patrek Jóhannesson, Einar Örn Jónsson, Gylfa Gylfason og Vigni Svavarsson.

Stuttur stans hjá Skjern

Sveinn kom til Skjern á síðasta sumri eftir að samningur hans við HC Erlangen, sem einnig leikur í þýsku 1. deildinni, varð að engu vegna hnémeiðsla sem Sveinn glímdi við. Hann meiddist mjög illa á hné á landsliðsæfingu nokkrum dögum fyrir Evrópumótið fyrir ári. Áður en Sveinn gekk til liðs við Skjern hafði hann leikið í þrjú ár með SønderjyskE sem leikur í dönsku úrvalsdeildinni eins og Skjern.

Sveinn hefur jafnað sig vel af meiðslunum og hefur leikið með Skjern síðustu mánuði.

Er Fjölnismaður

Sveinn er Fjölnismaður að upplagi en lék einnig með ÍR áður en hann fór til Danmerkur sumarið 2019. Hann lék með íslenska landsliðinu á EM 2020 og var í landsliðinu í undankeppni EM vorið 2021.


„Ég hef alltaf látið mig dreyma um að leika í Þýskalandi og nú þegar tækifæri gafst þá gat ég ekki sagt nei,“ segir Sveinn í samtali við heimasíðu Skjern.


GWD Minden er í næst neðsta sæti 1. deildar með sex stig eftir 18 leiki en keppni í deildinni er rétt rúmlega hálfnuð.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -