- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sveinn veltir fyrir sér möguleikunum

Sveinn Jóhannsson hefur samið við Kolstad í Noregi. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Það er nokkrir möguleikar uppi á borðinu. Ég er að skoða þá ásamt umboðsmanni og vonandi liggur ákvörðun fyrir á næstu vikum hvað ég geri á næsta tímabili,“ sagði Sveinn Jóhannsson, landsliðsmaður og leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins SønderjyskE þegar handbolti.is hitti hann að máli fyrir æfingu íslenska landsliðsins í vikunni.


Sveinn er á sínu þriðja keppnistímabili með SønderjyskE en ljóst mátti á honum heyra að nú væri hann farinn að hugsa sér til hreyfings þótt hann vildi ekki slá neinu föstu í þeim efnum. Ekki væri sjálfgefið að hann haldi áfram í herbúðum SønderjyskE sem samdi á dögunum við reyndan línumann um að bætast í hópinn næsta sumar.

Hlakkar til framhaldsins

„Ég sé ekki eftir að hafa samið við SønderjyskE, þvert á móti. Árin þrjú hjá félaginu hafa skilað mér miklum framförum. Ég hlakka til næstu ára með meiri framförum á góðum stað,“ sagði Sveinn sem er 22 ára gamall og lék með Fjölni hér á landi upp í meistaraflokk en var eitt ár hjá ÍR áður en hann fór til Danmerkur sumarið 2019.


Talsverðar vonir voru bundnar við að SønderjyskE blandaði sér í toppbaráttu dönsku úrvalsdeildarinnar á keppnistímabilinu sem nú stendur yfir. Sú hefur ekki orðið raunin ennþá, en Sveinn er bjartsýnn á betri tíð sé framundan.

Ætlum okkur í efri hlutann

„Við höfum ekki leikið eins vel og við ætlum okkur. Upphafsleikurinn var reyndar góður þegar við unnum Aalborg en því miður tókst okkur ekki að fylgja því alveg eftir í næstu leikjum á eftir. Við berjumst áfram og ætlum okkur upp í efri hlutann,“ sagði Sveinn. SønderjyskE situr um þessar mundir í 10. sæti með átta stig að loknum tíu leikjum.

Vitum hvað við getum

Sveinn segir að ekki hafi gripið um sig taugaveiklun í herbúðum félagsins þótt árangurinn hafi verið undir væntingum. „Við vitum vel hvers við erum megnugir. Árangurinn mun batna þegar á tímabilið líður. Það er enginn spurning um það.“

Ljóst er að fleiri uppskipti verða hjá SønderjyskE en þau að Sveinn mun væntanlega róa á önnur mið. Þjálfarinn Jan Pytlick tilkynnti fyrir skömmu að hann hefði í hyggju að taka sér frí frá þjálfun að þessu tímabili loknu. Pytlick er einn þekktasti þjálfari Danmerkur og var m.a. um árabil þjálfari danska kvennalandsliðsins.

Vaxandi hlutverk

Sveinn segir hlutverk sitt hafa vaxið jafnt og þétt. „Ég hef fengið sífellt meiri leiktíma auk þess sem ábyrgðin hefur vaxið. Samkeppnin er mikil í liðinu og því er liðið nú mjög góður vettvangur fyrir mig til þess að halda áfram að bæta mig jafnt og þétt,“ sagði Sveinn hefur leikið meira í sóknarleiknum á tímabilinu til þess en í fyrra og í hitteðfyrra. Áfram er hann í veigamiklu hlutverki í vörninni.

Langar að leika meira

„Auðvitað vil ég spila meira en ég ræð ekki alveg ferðinni en reyni að nýta þau tækifæri sem gefast í sóknarleiknum. Fram til þessa hefur leiktíminn skipst nokkuð jafnt niður á okkur línumennina,“ segir Sveinn.

Hörð samkeppni

Sveinn hefur verið með landsliðinu í síðustu leikjum m.a. í undankeppni EM í lok apríl og í byrjun maí. Hann segist ekkert slá af á þeim vígstöðvum.

„Ég ætla mér að berjast áfram fyrir veru minni í landsliðinu. Ég mun leggja mig allan fram. Samkeppnin er hinsvegar hörð og maður verður að gera sitt besta til þess að vera áfram inni í myndinni hjá landsliðsþjálfaranum,“ sagði Sveinn Jóhannsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður SønderjyskE í Danmörku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -