- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Svekktur að fá ekki annað eða bæði stigin

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Ég er svekktur að fara ekki með eitt eða tvö stig úr leiknum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, eftir tveggja marka tap fyrir Portúgal, 26:24, í undankeppni EM í handknattleik í Porto í kvöld.


„Það sem fór með okkur voru tvö misheppnuð víti, hraðaupphlaup og opin færi. Í leik þar sem lítið er skorað þá munar um hvert tækifæri sem fer forgörðum,“ sagði Guðmundur og bætti við.

„Svo sannarlega er ekki auðvelt að verjast portúgalska liðinu sem hefur á að skipa góðum sóknarmönnum og öflugum línumönnum en þegar dæmið er gert upp þá þarf að nýta tækifærin betur en gert var að þessu sinni. Ekki síst á þeim köflum leiksins þar sem staðan er jöfn eða við eigum þess kost að komast tveimur mörkum yfir eins og möguleiki var fyrir hendi á þegar á síðari hálfleikinn leið,“ sagði Guðmundur Þórður ennfremur.

„Þetta er það sem maður er svekktur með en vissulega var mikilvægt að ná þó að minnka muninn í tvö mörk eftir að hafa lent þremur mörkum undir á síðustu mínútu. Hvert mark getur skipt máli þegar riðillinn verður gerður upp.“


Guðmundur segir að sóknarleikurinn hafi verið betri í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Flæðið hafi verið mun betra í þeim síðari og boltinn fengið að ganga betur manna á milli. „Fyrri hálfleikurinn var alls ekki góður. Við náðum að fara vel yfir málin í hálfleik og gera betur í síðari hálfleik en vantaði upp á nýtingu færanna sem við fengum. Það gengur ekki í svona jöfnum leik að nýta ekki betur færin,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -