Dauft er yfir fleiri en íslenskum landsliðsmönnum um þessar mundir. Þeir sænsku eru einnig með böggum hildar eftir þriggja marka tap fyrir Brasilíu í annarri umferð milliriðils þrjú í Bærum í Noregi í dag, 27:24. Þar með er víst að sænska landsliðið kemst ekki í átta liða úrslit. Leikmenn liðsins verða að pakka niður og halda heim á mánudaginn. Engin von er fyrir lokaumferðina á sunnudaginn þegar grannþjóðirnar Noregur og Svíþjóð mætast nánast í vináttuleik á heimsmeistaramóti. Lið beggja þjóða eru úr leik.
Brasilía kemst í átta liða úrslit úr milliriðli þrjú ásamt Portúgal. Svo langt hafa Brasilíumenn ekki komist áður á HM í karlaflokki.
Leikur Portúgal og Brasilíu snýst um það hvort þeirra hreppir efsta sæti riðilsins og mætir Þýskalandi í átta liða úrslitum. Tapliðið leikur við heimsmeistara Danmerkur átta liða úrslitum á miðvikudag.
Brasilíumenn voru sterkari og með yfirhöndina frá upphafi til enda leiksins við Svía í Bærum í dag og unnu því verðskuldað. Brasilía vann Noreg í 1. umferð riðlakeppninnar.
Noregur lagði Chilemenn, 39:22, í kvöld. Sigurinn er skammgóður vermir fyrir Norðmenn vegna þess að ljóst er að lið þeirra situr eftir með sárt ennið.
Portúgal er efst í milliriðli þrjú með sjö stig. Brasilíumenn hafa sex stig en árangur þeirra á HM hefur svo sannarlega vakið athygli. Tvær þjóðir utan Evrópu verða í átta liða úrslitum, nokkuð sem ekki hefur gerst lengi.