Svíar eru komnir í undanúrslit á Evrópumeistaramótinu í handknattleik á kostnað Norðmanna eftir hreint ævintýralegan sigur í síðasta leik milliriðils tvö í Bratislava í kvöld, 24:23. Eftir fyrri hálfleik benti fátt til annars en að Norðmenn ynnu öruggan sigur. Þeir voru fimm mörkum yfir, 14:9. Svíar sneru taflinu við í síðari hálfleik, svo um munaði.
Spánverjar hafna í efsta sæti riðilsins með átta stig. Svíar fengu jafn mörg stig en Norðmenn leika um 5. sæti mótsins á föstudaginn í Búdapest. Spánn vann Svíþjóð í viðureign liðanna í riðlakeppni mótsins, 32:28, og er þar með í efsta sæti milliriðils tvö.
Þegar 14 mínútur voru til leiksloka var forskot Noregs eitt mark, 18:17.
Þeir náðu þá góðum kafla sem lauk þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum með að þeir náðu á ný fjögurra marka forystu, 23:19. Svíar neituðu að gefast upp og skoruðu fimm síðustu mörk leiksins.
Valter Chrintz skoraði sigurmarkið úr vítakasti þegar 15 sekúndur voru til leiksloka, 24:23. Norðmenn reyndu að jafna metin á síðustu sekúndum en allt kom fyrir ekki. Skot Sander Sagosen fór framhjá og Svíar, undir stjórn Norðmannsins Glenn Solberg, stigu sigurdans á leikvellinum á sama tíma og Norðmenn voru niðurlútir.
Mörk Svíþjóðar: Valter Chrintz 6, Jim Gottfridsson 4, Oscar Bergendahl 3, Hampus Wanne 3, Albin Lagergren 2, Jonathan Carlsbogard 2, Max Darj 2, Lukas Sandell 2.
Mörk Noregs: Harald Reinkind 6, Sander Sagosen 4, Christian O´Sullivan 4, Magnus Gullerud 3, Sebastian Barthold 2, Sander Øverjordet 1, Kristian Sæveras 1, Erik Thorsteinsen 1, Thomas Solstad 1.
Alfreð Gíslason og lærsveinar hans í þýska landsliðinu unnu Rússa í dag, 30:29, og hafa þar með lokið keppni á mótinu. Þýska landsliðið skoraði tvö síðustu mörkin í leiknum.
Spánverjar unnu nauman sigur á Póllandi í upphafsleik dagsins í riðlinum, 28:27.