- Auglýsing -
- Auglýsing -

Svo nærri en samt svo fjarrri

Íslenska landsliðið sem tók þátt í leiknum í Zrenjanin í kvöld. Mynd/EHF
- Auglýsing -

Draumur íslenska landsliðsins um sæti í lokakeppni EM 2022 rættist ekki Zrenjanin í kvöld, því miður. Þrátt fyrir stórgóða frammistöðu á löngum köflum í leiknum þá dugði það ekki til. Serbar unnu með sex marka mun, 28:22, sem var óþarflega mikill munur þegar upp var staðið. Hinsvegar er óvíst að meiri huggun hefði verið að minna tapi.


Serbar voru fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:15. Aðeins tveimur og hálfri mínútu fyrir lok hálfleiksins var aðeins eins marks munur. Fjögurra marka munur í upphafi síðari hálfleiks gerði róðurinn þyngri en ella. Ekki létti það róðurinn að Serbar skoruðu tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks.

Steinunn Björnsdóttir, Sunna Jónsdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Lovísa Thompson verjast. Mynd/EHF

Skiptist í tvo horn

Leikurinn skiptist mjög í tvö horn. Sóknarleikurinn var í aðalhlutverki í fyrri hálfleik en varnarleikurinn í þeim síðari. Íslenska liðið lék frábæran varnarleik í síðari hálfleik með Steinunni Björnsdóttur í aðalhlutverki auk þess sem Elín Jóna Þorsteinsdóttir náði sér vel á strik í markinu. Um leið og varnarleikurinn tók stakkaskiptum til hins betra þá bilaði sóknarleikurinn. Um skeið gáfust möguleikar á að minnka muninn niður í tvö mörk sem hefði getað aukið pressuna á Serba sem virtust á köflum ekkert vera of öruggir með sig þrátt fyrir að hafa 2.500 stuðningsmenn að baki sér.


Því miður þá nýttust möguleikarnir sem gáfust ekki og Serbum tókst að halda fengnum hlut.

Steinunn Björnsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir á sprettinum. Mynd/EHF

Gjörbreytt lið

Frammistaða íslenska landsliðsins að þessu sinni er örugglega einn af betri leikjum kvennalandsliðsins frá upphafi á útivelli, alltént á síðari árum. Ekki má gleyma því að ekki eru liðin nema þrjú til fjögur ár síðan landsliðið lenti á vegg gegn sterkum andstæðingum og er það skemmst að minnast leikja við Spán og Króatíu. Serbar höfnuðu í 12. sæti á HM í desember og unnu þáverandi heimsmeistara Hollands á EM 2020.

Hildigunnur Einarsdóttir fagnar í leiknum í kvöld. Mynd/EHF

Brúum bilið

Framfarir hafa verið miklar á síðustu misserum og mánuðum hjá íslenska landsliðinu. Aðeins er eitt í stöðunni þegar tárin hafa verið þerruð og það er upp með kassann og áfram veginn. Brúum bilið sem er eftir. Það er svo glettilega stutt eftir.


Mörk Íslands: Sandra Erlingsdóttir 4, Steinunn Björnsdóttir 4, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 4, Lovísa Thompson 3, Unnur Ómarsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 1, Karen Knútsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 8, 29,6% – Hafdís Renötudóttir 3, 25%.
Mörk Serbíu: Jovana Stojljkovic 7, Sanja Radosavljevic 4, Marija Petrovic 4, Natasa Lovric 3, Tamara Radojevic 3, Jovana Kovacevic 2, Andjela Janjusevic 2, Alekandra Stamenic 2, Jelea Agbaba 1.
Varin skot: Jovana Risovic 14, 40%.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir fyrirliði. MyndEHF

Handbolti.is var í Kristalna Dvorana-íþróttahöllinni í Zrenjanin og fylgdist með leiknum í stöðu- og textafærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -