- Auglýsing -
- Auglýsing -

Svolítið persónulegt fyrir okkur öll að ljúka mótinu með sigri

- Auglýsing -

„Fyrir okkur er mikið í húfi að ná sjöunda sæti á HM. Við höfum áður náð áttunda sæti á HM fyrir tveimur árum þegar þessi hópur var í 18 ára liðinu. Það er mikill hugur í liðinu að klára mótið með sigri,“ segir Árni Stefán Guðjónsson annar þjálfari 20 ára landsliðs kvenna á heimsmeistaramótinu í Skopje í Norður Makedóníu.

Í fyrramálið leikur íslenska landsliðið lokaleik sinn á mótinu við landslið Sviss um 7. sæti mótsins. Flautað verður til leiks klukkan tíu að staðartíma, átta árdegis heima á Íslandi. Um leið og bundinn verður endi á heimsmeistaramótið að þessu sinni þá lýkur þessi hópur ferli sínum í unglingalandsliði, sterkur hópur sem hefur að uppistöðu til verið saman í verkefnum síðan vorið 2021 þegar Árni Stefán og Ágúst Þór Jóhannsson tóku verkefnið að sér.

„Leikurinn í fyrramálið snýst svolítið um það hvort liðið nennir að vakna og setja sig í gírinn og skilja allt eftir á keppnisvellinum þegar flautað verður til leiksloka,“ sagði Árni Stefán þegar hann talaði við handbolta.is í Skopje í dag.

Árni Stefán segir góðan grunn vera í svissneska landsliðinu sem leiki skemmtilegan handknattleik, hraðan og mjög agressívan varnarlega.

„Það mun reyna mjög mikið á okkar stelpur í leiknum. Hugarfarið verður lykilatriði. Þess utan þá er það svolítið persónulegt fyrir okkur öll að ljúka mótinu með sigri. Þetta verður síðasti leikurinn hjá þessum hópi sem hefur fylgst meira og minna að í þrjú til fjögur ár. Ég held að allir vilji enda þetta á jákvæðum nótum og skilja allt eftir á vellinum og klára verkefnið með stæl,“ segir Árni Stefán Guðjónsson annar þjálfari U20 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is.

Lengra myndskeiðsviðtal er við Árna Stefán efst í þessari frétt.

Sem fyrr segir hefst leikur Íslands og Sviss um 7. sætið á HM 20 ára landsliða klukkan 8 að íslenskum tíma. Handbolti.is verður með textalýsingu úr keppnishöllinni auk þess að vera með tengil á streymi frá leiknum.

HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana

Yngri landsliðin.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -