„Þegar ég heyrði af áhuga félagsins á mér eftir heimsmeistaramót 21 árs landsliða þá var ég ekki lengi að hugsa mig um,“ segir handknattleiksmaðurinn Andri Már Rúnarsson sem skrifað hefur undir eins árs samning við þýska handknattleiksliðið SC DHfK Leipzig eins og handbolti.is hefur áður sagt frá.
„Tækifæri eins og þetta kemur ekki upp í hendurnar á manni á hverjum degi. Ég sló til,“ sagði Andri Már þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans þegar stund gafst milli æfinga.
Þekkir vel til
Andri Már þekkir vel til í þýskum handknattleik þrátt fyrir að vera aðeins tvítugur. Hann lék með Stuttgart keppnistímabilið 2021/2022 og var auk þess í fjögur ár í unglingaakademíu SC DHfK Leipzig áður hann flutti heim og gekk til liðs við Stjörnuna sumarið 2018.
„Ég hef rekist á mörg kunnugleg andlit á æfingasvæðinu undanfarna daga. Meðal annars er styrktarþjálfarinn sem þjálfaði mig í yngri flokkunum ennþá við störf hjá félaginu. Hann er líka með aðalliðið.“
Áður leikið undir stjórn föður síns
„Ég stekk ekki rakleitt út í djúpu laugina að þessu sinni heldur bý ég að reynslunni frá veru minni hjá Stuttgart tímabilið 21 til 22. Þetta verður gaman,“ sagði Andri Már sem þekkir vel til þjálfara SC DHfK Leipzig, Rúnars Sigtryggssonar föður síns. „Ég hef áður leikið undir hans stjórn svo ég reikna með að það verði allt í góðu,“ bætti Andri Már við glaður í bragði.
Andri Már lék undir stjórn föður síns hjá Stjörnunni frá 2018 til 2020 og aftur í tvo mánuði hjá Haukum framan af síðasta keppnistímabili áður en Rúnar söðlaði um og var ráðinn þjálfari hjá SC DHfK Leipzig.
Haukar eiga hrós skilið
Síðasta árið lék Andri Már með Haukum í Olísdeildinni og var eitt helsta tromp liðsins á síðustu leiktíð, ekki síst þegar Haukar léku við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn og lögðu Aftureldingu í undanúrslitum. Andri Már segir vandalaust hafi gengið að losna undan samningi hjá Haukum.
„Ég vil hrósa Haukum fyrir framkomu sína og aðstoð við að ég gæti nýtt þetta tækifæri hjá Leipzig,“ sagði Andri Már.
Getur ekki verið kyrr
SC DHfK Leipzig-liðið hóf æfingar í byrjun vikunnar. Sumarleyfið er stutt. Andri Már lék síðast handknattleik fyrir rúmum tveimur vikum með U21 árs landsliðinu á heimsmeistaramótinu. Hann segist ekki harma stutt sumarleyfi.
„Ég get ekki lengi verið kyrr og er alveg tilbúinn í tvær æfingar á dag á næstunni. Nú er æft af krafti að vera í sem bestu standi þegar keppnistímabilið hefst,“ sagði Andri Már Rúnarsson handknattleiksmaður og einn bronsstrákanna frá HM 21 árs landsliða á dögunum.
Sjá einnig:
SC DHfK Leipzig hefur staðfest komu Andra Más
Andri Már hefur samið við Leipzig í Þýskalandi
Hverjir eru bronsstrákanir okkar 2023?