- Auglýsing -
- Auglýsing -

Talsvert púsluspil að skipuleggja Ísraelsferð

Íslenska landsliðið í handknattleik karla fer til Búdapest í fyrramálið. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Það hefur kostað talsverða vinnu og heilabrot að koma íslenska landsliðinu, þjálfurum og aðstoðarmönnum til Tel Aviv í Ísrael þar sem landslið Ísraels og Íslands mætast í undankeppni EM karla annað kvöld klukkan 17.30.


Fjórir úr hópnum fóru frá Íslandi í gær í gegnum London og eru komnir til Tel Aviv að sögn Róberts Geirs Gíslasonar framkvæmdastjóra Handknattleikssambands Íslands. Hann, Jón Birgir Guðmundsson, sjúkraþjálfari, og handknattleiksmaðurinn Tandri Már Konráðsson fóru af landi brott í nótt. Flugu þeir til Póllands og þaðan áfram til Vínarborgar þar sem þeir voru þegar handbolti.is talaði við Róbert. Þremenningarnir fara frá Vínarborgflugvelli í hádeginu til Tel Aviv.


Leikmenn sem leika í Þýskalandi komast með flugi frá Frankfurt til Tel Aviv í dag. Elvar Örn Jónsson, leikmaður Skjern, og Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður GOG, hitta hópinn í Frankfurt en þeir léku með liðum sínum í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld. Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, náði flugi frá Þýskalandi til Tel Aviv nánast rakleitt eftir að lið hans, Melsungen, hafði lokið leik við Flensburg í gær.


Flestir þeirra landsliðsmanna sem leika með félagsliðum á Norðurlöndunum komust til Tel Aviv í gær enda voru þeir að leika með félagsliðum sínum á laugardaginn.


„Það var talsvert púsluspil að koma þessari ferð saman og með því flóknasta sem ég hef unnið að,“ sagði Róbert Geir í samtali við handbolta.is í morgun þar sem Róbert var staddur á flugvellinum í Vínarborg. Þar var nokkuð margt um manninn.


Óvíst er hvort allir leikmenn íslenska landsliðsins nái að æfa saman fyrir leikinn við Ísraelsmenn á morgun. Flautað verður til leiks í Tel Aviv klukkan 17.30. Ísraelsmenn mæta Litháaum síðdegis í dag í Tel Aviv.


Á miðvikudagsmorgun ferðast allur íslenski hópurinn saman með einkavél frá Tel Aviv til Vilnius í Litháen vegna leiks við Litháa í undankeppninni á fimmtudaginn. Eina leiðin til þess að ná í tíma til Vilnius með allan hópinn var að leigja sérvél frá Ísrael. Íslenska liðið ætti þar með að ná einni æfingu saman á miðvikudaginn í Vilnius.

Þriðji leikurinn og síðasti leikurinn í undankeppni EM verður í Schenkerhöllinni á Ásvöllum á sunnudaginn klukkan 17.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -