ÍBV hélt í hefðina í Mosfellbæ í kvöld og vann Aftureldingu enn einu sinni á hennar heimavelli. Að þessu sinni voru lokatölur, 34:29, eftir að Afturelding var marki yfir að loknum fyrri hálfleik í kvöld, 15:14. Sjö ár eru liðin síðan Afturelding vann ÍBV að Varmá og virðist engu breyta þótt kynslóðaskipti eigi sér stað í báðum liðum. Eyjamenn krærktu í langþráðan sigur og hafa nú 11 stig að loknum 10 leikjum.
Afturelding skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins áður en Eyjamenn höfðu áttað sig á því að leikurinn væri hafinn. Um leið og þeir komust að því voru þeir ekki lengi að jafna metin. Eftir það var jafnt á nánast öllum tölum til loka hálfleiksins sem var hreint með ólíkindum sé litið til markvörslunnar. Petar Jokanovic var með 45% hlutfallsmarkvörslu í marki ÍBV í fyrri hálfleik meðan Arnór Freyr var með 22%.
Afturelding var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:14, byrjaði síðari hálfleik af krafti og var með þriggja marka forskot, 19:16, eftir sjö mínútna leik. Aftureldingarliðið hafði þá leikið vörn ÍBV nokkrum sinnum afar grátt. Eyjamenn jöfnuðu metin á hálfri annarri mínútu eftir að hafa lagt á ráðin í leikhléi. Lengi var jafnt eftir þetta þar til Afturelding færði Eyjamönnum boltann á silfurfati hvað eftir annað. Upp úr því myndaðist þriggja marka forysta ÍBV, 25:22, þegar hálfleikurinn var hálfnaður.
Þennan mun náðu Mosfellingar aldrei að minnka. Varnarleikur liðsins var í molum og markvarslan þar af leiðandi ekki upp á marga fiskana. Eyjavörnin var heldur ekki upp á það besta að þessu sinni en Jokanovic bætti talsvert upp með góðri frammistöðu í markinu.
Bæði lið hafa í sínum fórum langa sjúkralista. Þess vegna voru þau lengst af borin uppi af ungum leikmönnum. Gaman var að sjá úr hversu miklum efnivið bæði lið hafa úr að spila. Arnór Viðarsson er nýjast viðbótin í ÍBV-liðið. Reyndar var hann með á síðasta tímabili einnig en hlutverk hans hefur vaxið í vetur í ljósi ástandsins. Þessi 18 ára peyi, og bróðir landsliðsmannsins Elliða Snæs Viðarssonar, á vafalaust eftir að láta mikið að sér kveða þegar fram líða stundir. Hraustur piltur sem gaman verður að fylgjast með á næstunni.
Ívar Logi Styrmisson er annar sem gerir ekkert annað en að vaxa með aukinni reynslu. Fleiri væri hægt að minnast á.
Nýjasta viðbótin í Aftureldingarliðinu, lánsmaðurinn frá Haukum, Guðmundur Bragi Ástþórsson, er bráðsnjall og útsjónarsamur. Um Þorstein Leó Gunnarsson hefur verið fjallað talsvert og ekki að ástæðulausu. Blær Hinrikssonar er annar út Aftureldingarliðinu sem fróðlegt verður að fylgjast með á næstu árum.
Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Logi Gunnarsson 5, Guðmundur Bragi Ástþórsson 5, Blær Hinriksson 5, Gunnar Kristinn Þórsson 4, Þrándur Gíslason Roth 3, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 3, Einar Ingi Hrafnsson 2, Guðmundur Árni Ólafsson 2.
Mörk ÍBV: Hákon Daði Styrmisson 9, Arnór Viðarsson 7, Dagur Arnarsson 6, Theodór Sigurbjörnsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 3, Ívar Logi Styrmisson 3, Róbert Sigurðarson 1, Jonathan Weredelin 1.