Ekki er öll von úti hjá Íslendingaliðinu Gummersbach eftir að annar helsti keppinautur þess um annað af tveimur efstu sætum þýsku 2. deildarinnar, N-Lübbecke, tapaði viðureign sinni í næsta síðustu umferð í kvöld. Á sama tíma unnu liðsmenn Gummersbach sinn leik á sannfærandi hátt.
Þar með munar aðeins einu stigi á N-Lübbecke og Gummersbach fyrir lokaumferðina sem fram fer eftir viku. Tvö efstu liðin öðlast keppnisrétt í 1. deild á næstu leiktíð en það sem hafnaði í þriðja sæti situr eftir með sárt ennið.
Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark þegar Gummersbach vann Konstanz, 28:21, á heimavelli en Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson verður liðsmaður þess á næstu leiktíð.
N-Lübbecke tapaði fyrir Rimpar, 29:23, og hefur 54 stig eftir 35 leiki eins og HSV Hamburg sem á leik inni gegn Hamm-Westfalen sem fram fer á þriðjudagskvöld. Gummesbach er með 53 stig.
Lokaumferðin fer fram eftir viku. Þá mætast gömlu stórveldin í þýskum handknattleik, Grosswallstadt og Gummersbach á heimavelli fyrrnefnda liðsins. N-Lübbecke fær Ferndorf í heimsókn og Aron Rafn Eðvarðsson og félagar í Bietigheim taka á móti HSV Hamburg.
Staðan: