- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þegar vonin ein var eftir – ævintýralegt jafntefli

Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður markvörður Nantes og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið náði jafntefli á ævintýralegan hátt gegn Serbum í upphafsleik sínum á Evrópumótinu í handknattleik karla, 27:27, í Ólympíuhöllinni í München í kvöld. Tvö mörk á síðustu 30 sekúndunum tryggði annað stigið. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði jöfnunarmarkið þegar sjö sekúndur voru eftir af leiktímanum. Ísland var marki yfir í hálfleik, 11:10.

Gríðarlegur fögnuður greip um sig hjá frábærum íslenskum áhorfendum, nærri 4.000, þegar Sigvaldi skoraði markið. Íslensku áhorfendurnir voru frábærir og riðu sennilega baggamuninn þegar upp var staðið. Þvílík frammistaða undir stjórn Sérsveitarinnar.

Endalokin minntu á ævintýralegan upphafsleik Íslands og Serbíu á EM 2010 í Austurríki þegar Serbar stálu öðru stiginu á síðustu sekúndum með þremur síðustu mörkum leiksins á nánast einni mínútu. Hvort þessi leikur sé forsmekkurinn á að íslenska landsliðið endurtaki leikinn frá 2010 skal ósagt um látið. Alltént bauð sóknarleikurinn í kvöld ekki upp á að maður geti fyllst bjartsýni. Hinsvegar er ljóst að baráttuandinn er fyrir hendi.

Tveimur mínútum fyrir leikslok blés ekki byrlega þegar Serbar komust enn einu sinni þremur mörkum yfir, 24:27. Þeir höfðu náð að keyra hraðann niður í nánast ekkert í síðari hálfleik. Einar Þorsteinn Ólafsson var þá sendur inn í vörnina. Hann náði að rugla Serba hressilega í ríminu. Viktor Gísli Hallgrímsson tók að verja aftur. Baráttuandinn var fyrir hendi meðal leikmanna.


Þrátt fyrir baráttu og jafntefli í lokin er óhætt að segja að eitt besta sóknarlið heims hafi náð að standa undir væntingum að þessu sinni. Nokkrir leikmenn voru afar slakir. Varnarleikurinn sem oft hefur verið Akkilesarhæll landsliðsins var góður, frábær í fyrri hálfleik og Viktor Gísli hélt íslenska liðinu inn í leiknum í fyrri hálfleik með 50% hlutfallsmarkvörslu.

Ljóst er að mikið betur verður að gera gegn Svartfellingum á sunnudaginn. Þá verða menn að girða sig í brók og knýta skóþveng sinn.

Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 7, Sigvaldi Björn Guðjónsson 6, Viggó Kristjánsson 4, Aron Pálmarsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Elvar Örn Jónsson 2, Ómar Ingi Magnússon 2, Janus Daði Smárason 1, Elliði Snær Viðarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 15, 39,5% – Björgvin Páll Gústavsson 0.
Mörk Serbíu: Dragan Pechmalbec 5, Petar Djordjic 4, Bogdan Radivojevic, 3, Lazar Kukic 3, Uros Borzas 3, Uros Kojadinovic 2, Nemanja Ilic 2, Vanja ilic 2, Predrag Vejin 2, Mijajlo Marsenic 2.
Varin skot: Dejan Milosavljev 9, 25,7% – Vladimir Cupara 2, 100%.

EM 2024 – leikjadagskrá, úrslit, staðan – riðlakeppni

Handbolti.is með nærri 4.000 Íslendingum í Ólympíuhöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -