- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þeir sænsku voru sterkari – sýning hjá Arnóri Snæ

Arnór Snær Óskarsson í leik með Val á síðustu leiktíð. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Tíu mínútna kafli í síðari hálfleik var Val að falli í viðureign sinni við sænska meistaraliðið Ystads IF í sjöttu umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í Origohöllinni í kvöld. Sænska liðið náði þá fimm marka forskoti sem það náði að halda meira og minna til leiksloka, lokatölur, 32:29. Valur áfram í fjórða sæti riðilsins með fimm stig þegar fjórar umferðir eru eftir en þær fara fram í þriðjudagana fjóra í febrúar.


Arnór Snær Óskarsson fór á kostum í leiknum í kvöld og skoraði 13 mörk og var svo sannarlega maður leiksins. „Ég er bara svekktur með að hafa ekki unnið leikinn,“ sagði Arnór Snær við handbolta.is rétt eftir að flautað var til leiksloka í hans stórbrotnu sýningu sem því miður nægði ekki.

Evrópudeildin, 6. umferð: úrslit og staðan.

Valur var með frumkvæðið fyrstu 23 mínútur leiksins og var þá tveimur mörkum yfir, 13:11, og gat náð þriggja marka forskoti. Það tókst ekki og hver sóknin á fætur annarri rann út sandinn á síðustu mínútunum. Ystadsmenn gengu á lagið og voru marki yfir, 15:16, þegar gengið var til búningsherbergja.


Stiven Tobar Valencia jafnaði metin fyrir Val, 16:16, á annarri mínútu síðari hálfleiks. Við tóku erfiðar mínútur hjá Valsliðinu. Sóknarleikurinn gekk illa. Leikmenn Ystads, með gamla brýnið Kim Andersson, létu ekki bjóða sér það tvisvar. Þeir komust fimm mörkum yfir 19:24, áður en Valsmenn náðu sér á strik ný.
Að minnsta kosti þrisvar sinnum tókst Val að minnka muninn í eitt mark á síðasta stundarfjórðungnum. Nær komust Valsmenn ekki og Ystads fagnaði sigri. Þar með hafa Flensburg, PAUC og Ystads aðeins skorið úr öðrum liðum riðilsins.


Valsmenn söknuðu svo sannarlega Bergs Elís Rúnarssonar, Magnúsar Óla Magnússonar og Róberts Arons Hostert í kvöld. Það munar um reynslumenn eins og Magnús Óla og Róbert í svona leikjum.


Auk Arnórs Snæs þá kom Tryggvi Garðar Jónsson inn með áræðni og þor í sóknarleik Vals, ekki síst í síðari hálfleik. Björgvin Páll Gústavsson varði vel í markinu.

Oscar Carlén, þjálfari Ystad, sagði á blaðamannafundi eftir að leikinn að markmið liðsins hafi verið að halda hraða Valsliðsins eins mikið niðri og kostur væri á. Óhætt er að segja að liðsmönnum hans hafi tekist ætlunarverk sitt.


Mörk Vals: Arnór Snær Óskarsson 13, Tryggvi Garðar Jónsson 5, Stiven Tobar Valencia, 4, Finnur Ingi Stefánsson 2, Aron Dagur Pálsson 2, Þorgils Jón Svölu Bladursson 2, Tjörvi Týr Gíslason 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 15, 32%.
Mörk Ystads: Kim Andersson 7, Jonathan Svensson 5, Kasper Palmar 4, Anton Månsson 4, Ebbe Stankiewicz 3, PHilip Stenmalm 2, Mads Kalstrup Honoré 2, Hampus Karlsson 2 Julius Lindskog Andersson 2, Johan Dahlin 1.
Varin skot: Niklas Kraf 18, 39,1%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -