- Auglýsing -
- Auglýsing -

Teitur og félagar kjöldrógu toppliðið í grannaslag

Teitur Örn Einarsson leikmaður Flensburg. Mynd/Flensburg
- Auglýsing -

Teitur Örn Einarsson og félagar í Flensburg tóku leikmenn efsta liðs þýsku 1. deildarinnar, THW Kiel, í kennslustund í dag og unnu stórsigur, 36:23, í grannaslag en viðureignir Flensburg og Kiel eru á meðal stærstu leikja hverrar leiktíðar. Að þessu sinni var spennan lítil um það hvort liðið færi með sigur úr býtum eftir að leikurinn hófst. Leikmenn Flensburg voru sterkari frá byrjun.

Þetta er stærsti sigur Flensburg á Kiel í 107 viðureignum liðanna.

Buric fór á kostum

Teitur Örn og félagar hafa átt misjafna leiki upp á síðkastið. Þeir sýndu allar sínar bestu hliðar að þessu sinni í Flens-Arena en langt er síðan uppselt var á leikinn. Bosníski landsliðsmarkvörðurinn Benjamin Buric fór hamförum í marki Flensburg á bak við frábæra vörn. Buric lauk leik með 41% markvörslu meðan Daninn Niklas Landin náði sér lítt á strik í marki THW Kiel.


Teitur Örn skoraði tvö mörk í þremur skotum í leiknum. Emil Jakobsen skoraði átta mörk og var markahæstur hjá Flensburg. Johannes Golla var næstur með sjö mörk. Niclas Ekberg var markahæstur hjá Kiel með fimm mörk.

Hákon Daði skoraði fjögur

Tap Kiel-liðsins var vatn á myllu leikmanna Füchse Berlin sem tylltu sér í efsta sæti deildarinnar, stigi ofar en Kiel. Füchse Berlin vann Gummersbach í Schwalbe Arena í Gummersbach, 30:28. Berlínarliðið náði að kreista út sigur undir lokin eftir að lærisveinar Guðjóns Vals höfðu verið yfir mestan hluta leiktímans, m.a. 17:14, eftir fyrri hálfleik. Hákon Daði Styrmisson skoraði fjögur mörk fyrir Gummersbach, tvö úr vítaköstum. Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark og var tvisvar sendur í tveggja mínútna kælingu af Julian Köppl og Denis Regner dómurum.


Hans Lindberg var markahæstur hjá Füchse Berlin með níu mörk en Lukas Blohme var atkvæðamestur heimamanna með sjö mörk.

Tveimur stigum frá toppnum

Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen sitja sem fastast í þriðja sæti deildarinnar eftir öruggan sigur á Wetzlar á útivelli, 29:23. Ýmir Örn skoraði ekki í leiknum en lét til sín taka í vörninni og var fyrir vikið vísað af leikvelli tvisvar sinnum. Þýski landsliðsmaðurinn Juri Knorr átti enn einn stórleikinn fyrir Löwen. Hann skoraði níu mörk í dag.


Hannover-Burgdorf, þar sem Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari, tapaði í heimsókn til Göppingen, 33:29.

Tólf mörk í gærkvöld

Í gærkvöld leiddu Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon lið SC Magdeburg til sigurs á heimavelli gegn HC Erlangen, 31:28. Ómar Ingi skoraði átta mörk, þar af fimm úr vítaköstum. Hann átti einnig fjórar stoðsendingar. Gísli Þorgeir skoraði fjögur mörk í sex skotum og átti fjórar stoðsendingar.


Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari HC Erlangen.

Staðan:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -