- Auglýsing -
- Auglýsing -

Teitur Örn fer heim frá Köln með bronsverðlaun

Teitur Örn Einarsson leikmaður Flensburg. Mynd/Flensburg
- Auglýsing -

Teitur Örn Einarsson og félagar í Flensburg-Handewitt hreppti bronsverðlaun í þýsku bikarkeppninni í handknattleik karla í dag. Flensburg vann Füchse Berlin með þriggja marka mun í viðureign liðanna í Lanxess-Arena í Köln, 31:28. Berlínarliðið var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:15.

Þetta er annað árið í röð sem Teitur Örn fer heim með verðlaunapening frá bikarhelginni í Þýskalandi. Á síðasta ári komu silfurverðlaun í hlut hans og leikmanna Flensburg.

Teitur Örn skoraði tvö mörk í leiknum og átti eina stoðsendingu. Daninn Simon Pytlick átti stórleik. Hann skoraði sjö mörk og gaf sjö stoðsendingar sem báru ávöxt. Emil Jakobsen og Johannes Golla voru næstir á eftir með sex mörk hvor fyrir Flensburg-liðið.

Lasse Andersson skoraði sjö mörk fyrir Füchse Berlin og var markahæstur. Mathias Gidsel var næstur með fimm mörk auk fjögurra stoðsendinga.

Danski landsliðsmarkvörðurinn, Kevin Møller, átti prýðilegan leik í marki Flensburg með 16 skot, þar af eitt vítakast. Serbneski landsliðsmarkvörðurinn Dejan Milosavljev, sem verið hefur að margra mati besti markvörður þýsku deildarinnar í vetur, náði sér ekki á flug en varði þó 10 skot.

Füchse Berlin, sem situr í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar og hefur aðeins tapað tveimur leikjum í deildinni á keppnistímabilinu, tapaði þar með öðrum leik sínum á jafnmörgum dögum í bikarkeppninni. Í gær beið liðið lægri hlut fyrir Magdeburg í undanúrslitum, 30:25.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -